Opnað hefur verið vefsvæði sem hýsir námskrána adalnamskra.is. Vefsvæðinu er meðal annars ætlað að dýpka umfjöllun um aðalnámskrána, vinna með kennslufræði námsgreina og margt það sem fram hefur komið að skorti í tengslum við stuðning um framkvæmd náms og kennslu.
Menntamálastofnun vinnur nú verkefni í umboði mennta- og menningarmálaráðuneytis sem snýr að aðalnámskrá grunnskóla. Fyrsti hluti verkefnisins var að gera námskrána aðgengilegri en verið hefur ásamt því að skapa umgjörð um fjölbreytt efni sem styður við framkvæmd hennar.
Fyrirhugað er að setja inn margskonar efni sem stutt getur við sameiginlegan skilning á námskránni, hugtökum sem þar koma fram og tengslum námskrár við framkvæmd náms og kennslu í skólum.
Rafræn framsetning býður upp á markvissara aðgengi að efni námskrárinnar þar sem vefútgáfan auðveldar notendum meðal annars leit í 27 köflum hennar. Einnig eru nú öll lykilhugtök undirstrikuð í textanum þar sem skilgreiningar þeirra birtast þegar farið er yfir þau með bendli. Skilgreiningar hugtakanna eru byggðar á aðalnámskránni ásamt Íðorðabanka Árnastofnunnar.