Ábyrgð framleiðenda á textíl bíður umfjöllunar nýs Evrópuþings 

Evrópuþingið samþykkti frumvarp um endurskoðun á úrgangstilskipun Evrópusambandsins þann 13. mars sl. þar sem m.a. er kveðið á um að taka upp framleiðendaábyrgð á textíl, fatnaði og skóm.

Talið er að 12,6 milljónir tonna af textílúrgangi falli til í Evrópu á hverju ári. @Adobe
Talið er að 12,6 milljónir tonna af textílúrgangi falli til í Evrópu á hverju ári. @Adobe

Markmiðið er að draga úr offramleiðslu á textíl og textílúrgangi. Þetta þýðir að fyrirtæki sem setja föt, skó og vefnaðarvöru á markað þurfa að standa straum af kostnaði við sérstaka söfnun, endurvinnslu og aðra meðhöndlun vörunnar eftir að hún er orðin að úrgangi. Áhrifin verða þau að upphæð, óljóst hversu há, verður lögð á hverja vöru sem seld er. Þannig er kostnaður fyrir meðhöndlun vörunnar inn í vöruverðinu í stað þess að vera greiddur eftir á. Málið verður afgreitt endanlega eftir kosningar til Evrópuþings sem fara fram í júní, samkvæmt fréttatilkynningu Evrópuþingsins

Talið er að 12,6 milljónir tonna af textílúrgangi falli til í Evrópu á hverju ári. Þar af eru fatnaður og skór 5,2 milljónir tonna eða 12 kg á hvern íbúa. Einungis er talið að innan við 1% af öllum vefnaðarvörum á heimsvísu sé endurunnið í nýjar vörur. 

Málið tengist endurskoðun úrgangstilskipunar og hefur tekið breytingum frá því að framkvæmdastjórn ESB tók það fyrir. Aðildarríkin þurfa að innleiða breytingarnar 18 mánuðum eftir gildistöku tilskipunarinnar en framkvæmdastjórnin lagði til 30 mánuði. Einnig munu nýju reglurnar ná yfir fleiri vörur, eins og fatnað og fylgihluti, teppi, rúmföt, gardínur, hatta, skófatnað, dýnur og teppi. Jafnframt vörur sem innihalda textílefni, eins og leður, samsett leður, gúmmí eða plast. 

Íslenska ríkið innleiddi kröfu um sérstaka söfnun textíls tveimur árum áður en núgildandi úrgangstilskipun Evrópusambandsins (2008/98/EC) gerir ráð fyrir eða 1. janúar 2023 í stað 2025. Það er því rúmt ár síðan komu til framkvæmda ýmis ákvæði laga nr. 103/2021 sem sett voru vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis, meðal annars sérstök söfnun og önnur meðhöndlun á textíl. Sveitarfélögum er með lögunum gert að safna textíl á grenndarstöðvum sem eiga að vera að staðsettar í ,,nærumhverfi við íbúa”. Í lögunum er óheimilt að blanda saman úrgangsflokkum sem hefur verið sérstaklega safnað og því er sveitarfélögum gert að ráðstafa textíl til endurnotkunar eða endurvinnslu eftir að söfnun hefur farið fram. Einnig er sveitarfélögum gert að nota samræmdar norrænar flokkunarmerkingar EUPicto fyrir söfnun á textíl. 

Samband íslenskra sveitarfélaga framkvæmdi vorið 2023 könnun á úrgangsstjórnun sveitarfélaga. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar var textíl safnað á söfnunarstöðvum á 24 af þeim 40 sveitarfélögum sem tóku þátt í könnuninni. Átta sveitarfélög höfðu á þeim tíma innleitt söfnun á textíl á grenndarstöðvum og hjá 13 sveitarfélögum fór söfnun á textíl alfarið fram á vegum góðgerðarsamtaka.