Ábendingar til sveitarfélaga vegna Covid-19

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð og glíman við Covid-19 er enn þá í algleymingi teljum við hjá sambandinu rétt að vekja athygli ykkar á eftirfarandi upplýsingum sem vonandi gagnast á komandi vikum og mánuðum.

Á vefsíðu sambandsins er að finna sérstaka Covid-19 síðu þar sem finna má gagnlegar upplýsingar, m.a. á sviði skóla-, velferðar- og starfsmannamála á tímum Covid-19.

Skólamál

Mennta- og barnamálaráðherra hefur komið á fót vöktunarreymi um sóttvarnir í skólastarfi. Fulltrúi sambandsins í teyminu er Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi. Vöktunarteymið mun funda daglega til þess að byrja með en hlutverk þess er að stuðla að markvissum viðbrögðum til að tryggja sem best öryggi barna, ungmenna og starfsfólks í skólum, og að börn fái notið lögbundinnar menntunar. Vöktunarteymið er samvinnuverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneytis, Grunns - félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennarasambands Íslands, almannavarnadeildar höfuðborgarsvæðisins og Skólameistarafélags Íslands undir forystu ráðherra mennta- og barnamála.

Hægt er að senda inn fyrirspurnir til teymisins á netfangið Covid19@mrn.is eða á netfang Svandísar svandis@samband.is sem kemur þeim áleiðist. 

Þá er einnig rétt að vekja athygli á að ef upp kemur smit í leik- og grunnskólum eða frístundastarfi og skólastjórnandi þarfnast aðstoðar er hægt að hafa samband við sérstaka bakvakt almannavarna sbr. útgefnar leiðbeiningar þar um.

Á Covid síðu sambandsins verða áfram birtar nýjustu upplýsingar sem völ er á hverju sinni og þar er einnig hægt að tengjast inn á Covid.is og spurt og svarað á vef menntamálaráðuneytisins.

Velferðarmál

Félagsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga settu á laggirnar viðbragðsteymi til að draga úr þjónusturofi við viðkvæma hópa 17. mars 2020.  Teymið hafði það hlutverk að styðja við sveitarfélögin og aðra þjónustuveitendur til að hægt væri halda uppi mikilvægri þjónustu við viðkvæma hópa.  Það teymi breyttist síðan í Uppbyggingarteymi félags- og velferðarmála sem er enn að störfum og gegnir sambærilegu hlutverki og viðbragðsteymið en fleiri málefnasvið heyra þó þar undir. Teymið safnar og miðlar upplýsingum um stöðu félags- og atvinnumála á landsvísu og mun nú í kjölfar aukinna smita í landinu taka stöðuna hjá sveitarfélögunum er varðar þjónustu við viðkvæma hópa. 

Bakvarðarsveit velferðarþjónustu er enn starfandi og er tilgangur hennar að tryggja mönnum í þjónustu við viðkvæma hópa.  Skráning í bakvarðarsveit hefur dalað að undanförnu og er mælt með að sveitarfélögin hafi eigin bakvarðarhóp til að leita til.

Hægt er að senda fyrirspurnir tengdar velferðarþjónustu vegna covid-19 á netfangið vidbragd@frn.is

Starfsmannamál

Á Covid-19 síðu sambandsins má finna svör við algengum spurningum varðandi starfsmannamál tengdum Covid-19. Eftir því sem Covid-19 faraldurinn dregst á langinn hafa komið upp nýjar spurningar og áskoranir í starfsmannamálum sem kjarasviðið hefur veitt ráðgjöf vegna. Með tilliti til þess vinnur kjarasvið sambandsins nú að því að bæta ítarlegri upplýsingum inn á vefinn.