31. jan. 2019

Ábendingar til starfshóps um gerð orkustefnu

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent starfshópi um gerð orkustefnu ýmsar ábendingar vegna 1. áfanga stefnumótunarinnar. Ábendingarnar eru settar fram í umsögn, sem ætlað er að endurspegla almennar áherslur í umræðunni um orkumál á vettvangi sveitarfélaga. Megináhersla er lögð á raforkumál og vísast varðandi hlut samgöngumála  til umsagnar sambandsins um aðgerðaáætlun um loftslagsmál.

Í umsögninni tekur sambandið heilshugar undir þá þörf, sem er til staðar hér á landi, fyrir orkustefnu sem byggir á skýrri framtíðarsýn, heildstæðu mati á orkuþörf og vandaðri sviðsmyndagreiningu. Vel útfærð orkustefna greiði fyrir ákvarðanatöku á vegum ríkis og sveitarfélaga varðandi landnotkun og fjárfestingum í innviðum og auðveldi enn fremur stjórnvöldum að bregðast við þróun á alþjóðavettvangi, svo sem varðandi samstarf um lausnir í loftslagsmálum og hvort stefnt skuli að útflutningi raforku um sæstreng. Þá ætti ný orkustefna jafnframt að spanna ítarlega umfjöllun um orkuskipti og loftslagsmál, sérstaklega varðandi samspil orkumála við skuldbindingar og markmið Íslands.

Að mati sambandsins er einnig mikilvægt að tekist verði á við spurningar sem lúta að endurgjaldi fyrir nýtingu auðlinda ásamt kröfum sveitarfélaga um sanngjarnar skattgreiðslur af raforkuframleiðslu og raforkuflutningi. Skattgreiðslur til sveitarfélaga vegna raforkumannvirkja verði að hækka, svo að ekki séu til staðar sérstakar skattaívilnanir vegna framleiðslu og flutnings á raforku.

Gæta verður samræmis við aðrar stefnumarkandi áætlanir ríkisins

Orkustefna stjórnvalda verður að vera í samræmi við markmið byggðaáætlunar sem og annarra stefnumarkandi áætlana stjórnvalda um innviðauppbyggingu. Gera verði verulegar úrbætur á flutningskerfinu svo að raforka sé til staðar fyrir þjóðfélagslega hagkvæm verkefni, þ.á.m. rafvæðingu hafna og orkuskipta í iðnaði. Áframhaldandi kyrrstaða leiði af sér augljósar hindranir fyrir atvinnuþróun víða um land.

Jafnframt telur sambandið að stefna beri að lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur með það fyrir augum, að aðgengi allra landsmanna að orku til húshitunar verði á sambærilegum kjörum.

Þá kalla sveitarfélögin eindregið eftir stefnu og leiðbeiningum af hálfu ríkisins um vindorkunýtingu, ásamt úrbótum á lagaramma starfseminnar. Samhliða vandaðri stefnumörkun og leiðbeiningum til sveitarfélaga mætti fela sveitarfélögum staðarval vegna vindorkuvera. Endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er einnig tímabær m.t.t. aukins áhuga á vindorkunýtingu.

Greina verður áhrif aukinnar náttúruverndar á nýtingu og flutning raforku

Tekið á fleiri álitaefnum í umsögninni varðandi t.a.m. einföldun skipulagslöggjafarinnar, stefnumörkun ríkisins vegna sæstrengs til meginlands Evrópu, endurskoðun á stefnu um lagningu jarðstrengja og verklag við gerð rammaáætlunar, svo að dæmi séu nefnd. 

Einnig er fjallað um áhrif aukinnar náttúruverndar á nýtingu og flutning á raforku og kallað er eftir auknu samráði við sveitarstjórnarstigið í þeim efnum. Þá er að mati sambandsins ekki síður mikilvægt að horft verði í auknum mæli til þess, hvort í lögum og við framkvæmd friðlýsinga á stórum landsvæðum sé gengið of langt í banni gegn orkunýtingu, svo sem rennslisvirkjunum og vindorkuverum.

Sambandið mun gera grein fyrir umsögninni í heild sinni á fundi með starfshópnum sem boðað hefur verið til 8. febrúar nk. Þá lýsir sambandið áhuga á frekari aðkomu að mótun orkustefnunnar og áskilur það sér rétt til að koma sjónarmiðum þess á framfæri á síðari stigum vinnunnar.

Drög að umsögn vegna orkustefnu 1. áfanga voru ræddi á stjórnarfundi sambandsins þann 25. janúar sl. og í skipulagsmálanefnd sambandsins, sem kom saman til fundar þann 29. sama mánaðar.

Mótun orkustefnu 1. áfanga er til umsagnar á samráðsgátt stjórnarráðsins. Skilafrestur umsagna er til 15. febrúar nk.