21. fundur sveitarstjórnar-vettvangs EES-EFTA

Sveitarstjórnarvettvangur EES-EFTA fundaði í tuttugasta og fyrsta sinn 19. júní 2020.

Á fundinum, sem fram fór með fjarfundarbúnaði, var fjallað um áhrif COVID-19 faraldursins á samstarf EFTA ríkjanna og Evrópusambandsins (ESB) og hvernig EES samningurinn virkaði við þær fordæmalausu aðstæður sem sköpuðust. Einnig var fjallað um helstu mál sem eru á döfinni hjá ESB, fyrir utan COVID-19 tengd mál, og varða sveitarstjórnarstigið.

Rolf Einar Fife, sendiherra Noregs í Brussel, gerði grein fyrir samskiptum EES-EFTA ríkjanna og ESB í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Þó svo að áhrif COVID-19 á aðildarríki ESB séu mjög mismunandi þá má segja að faraldurinn hafi í raun lamað alla venjulega starfsemi ESB. Þannig hafið mál sem áttu að vera í forgangi í ár verið ýtt til hliðar og öll starfsemi ESB sett í að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins og að bregðast við efnahagslegum afleiðingum hans. 

Það varð strax ljóst að aðgerðir ESB myndu einnig hafa áhrif á EES-EFTA ríkin og á málefni sem varða EES samningsins. Því var mikilvægt að EES-EFTA ríkin ættu náið samstarf við ESB þegar kom að lokunum landamæra, við að tryggja aðgang að sjúkragögnum og að tryggja nauðsynlega vörufluttninga þrátt fyrir lokun landamæra. Það sama átti einnig við um aðgerðir sem snúa að því að tryggja afkomu íbúa álfunnar og aðstoð við fyrirtæki.  EES samningurinn kveður á um náið samstarf EES-EFTA ríkjanna og ESB og reyndist samningurinn gríðarlega mikilvægur í því ástandi sem skapaðist vegna COVID-19 faraldursins. Var samstarf EES-EFTA ríkjanna og ESB mjög náið og ákvarðanir ESB teknar í samstarfi við EES-EFTA ríkin. Það var mat Rolf Einar Fife að án EES samningsins hefði verið mun erfiðara fyrir EES-EFTA ríkin að tryggja aðkomu að ákvarðanaferli ESB á tímum COVID-19 faraldurs.

Urs Bucher, sendiherra Sviss í Brussel, gerði grein fyrir samskiptum Sviss og ESB í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Sviss er eitt af EFTA ríkjunum, en er hins vegar ekki aðili að EES samningnum. Því eru samskipti Sviss við ESB með talsvert öðrum hætti en á við um EES-EFTA ríkin. Urs Bucher hafði mjög svipaða sögu að segja og Rolf Einar Fife og ljóst er að tvíhliða samningar Sviss og ESB tryggðu Sviss svipaða aðkomu og EES-EFTA ríkin höfðu að ákvörðunarferli ESB. Þá skipti landfræðileg staðsetning Sviss einnig miklu máli þar sem gríðarlegur fjöldi íbúa ríkja ESB vinna í Sviss. Af þessum sökum ferðast 2 milljónir íbúa ESB til Sviss daglega til að sækja vinnu. Því var mikilvægt bæði fyrir Sviss og ESB að landsmæralokanir tækju mið af þessu og heimiluðu þeim sem þurfa að sækja vinnu í Sviss að ferðast yfir annars lokuð landamæri.

Odd Godal, sérfræðingur í norska sveitarstjórnarráðuneytinu, fjallaði um helstu mál sem verða á dagskrá ESB á næstu mánuðum, fyrir utan COVID-19 tengd mál. Þar ber hæst annars vegar s.k. Grænn sáttmáli Evrópu og hins vegar s.k. Stafræn bylting Evrópu. Ljóst er að bæði þessi mál eru mikilvæg fyrir íslensk sveitarfélög og mun Brussel skrifstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga fylgjast náið með framvindu þessara mála og með hvaða hætti þau hafa áhrif á íslensk sveitarfélög. Sveitarstjórnarvettvangur EES-EFTA tók til starfa árið 2010 og er ætlað að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES-EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitafélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Formaður Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA er Rakel Óskarsdóttir.