Tímamótasamkomulag ríkis og borgar um húsnæðisuppbyggingu

Reykjavíkurborg áformar að tvöfalda magn nýrra íbúða frá fyrri áætlunum. Stefnt á 2.000 nýjar íbúðir á ári í Reykjavík næstu fimm árin.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, undirrita samkomulagið.
  • 35% íbúðanna verða á viðráðanlegu verði, hagkvæmar, vistvænar og félagslegar.
  • Borgin er fyrsta sveitarfélagið sem skilgreinir framlag sitt til aukins framboðs íbúðarhúsnæðis innan nýgerðs rammasamnings ríkis og sveitarfélaga.
  • Samkomulagið gerir ráð fyrir stórauknu framboði hagkvæmra  íbúða á viðráðanlegu verði en allt að 5.600 slíkar íbúðir verða byggðar á næstu tíu árum. Það jafngildir 10% allra íbúða í Reykjavík sem eru nú 56.967 talsins, skv. mannvirkjaskrá HMS.

Reykjavíkurborg varð fyrsta sveitarfélagið til að undirrita samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis til ársins 2032 en samningurinn var undirritaður í Ráðherrabústaðnum fimmtudaginn 5. janúar. Borgin ætlar að skapa skilyrði til þess að byggðar verði 16.000 íbúðir á samningstímanum, þar af verði um 2.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin – en það eru tvöfalt fleiri íbúðir en fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Árið 2022 voru byggðar um 1.000 nýjar íbúðir í borginni.

Samkomulagið við Reykjavíkurborg uppfyllir helming fyrirhugaðrar íbúðauppbyggingar næstu 5 ára

Samkomulag borgarinnar, ríkisins og HMS um aukningu íbúða er tilkomið í kjölfar þess að í sumar var undirritaður rammasamningur milli ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árunum 2023-2032. Markmið hans er að byggðar verði 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og 35.000 íbúðir á 10 árum. Framlag Reykjavíkur mun því duga til að uppfylla helming fimm ára markmiðs rammasamningsins og ríflega það fyrir tímabilið í heild.

Þetta var fyrsti rammasamningur sinnar tegundar þar sem ríki og sveitarfélög náðu saman um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal þeirra sem eru tekju- og eignaminni. Sérstök áhersla er í samningnum lögð á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði og húsnæðis á félagslegum grunni á lóðum og löndum í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Áskilið er að hún nemi minnst 40% af heildaruppbyggingu á viðkomandi svæði.

Áherslur á vistvæna uppbyggingu

Í samningnum er sérstök áhersla á vistvænar íbúðir, bæði hvað varðar viðmið um vistvæna mannvirkjagerð s.s. með BREAM-vottun, lágmörkun kolefnisspors og bætti orkunýtingu sem og þær íbúðir sem staðsettar eru í grennd við hágæða almenningssamgöngur eða aðra vistvæna samgönguinnviði. Í samningnum er auk þess kveðið á um hærra hlutfall íbúða á viðráðanlegu verði á lóðum og löndum í eigu ríkis og borgar, eða um 40% af heildaruppbyggingu á viðkomandi svæði. Þar undir fellur m.a. uppbygging íbúða á landi Keldna og Keldnaholts.

Stóraukið gegnsæi um framvindu uppbyggingar

Síðustu mánuði hefur HMS fundað með nær öllum sveitarfélögum landsins og farið yfir markmið rammasamningsins, stöðuna á húsnæðismarkaði og uppfærslu á húsnæðisáætlun viðkomandi sveitarfélags. Auðvelt er nú fyrir almenning að fylgjast með því hvernig gengur að uppfylla markmið húsnæðisáætlana sveitarfélaga en á gagnvirku Íslandskorti á vef HMS er nú bæði hægt að skoða samþykktar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga sem og allar íbúðir í byggingu  ogöll byggingaráform í rauntíma, allt frá útgáfu byggingarleyfis til lokaúttektar.

Hér er hægt að skoða niðurstöður stafrænna húsnæðisáætlana sveitarfélaga. Upplýsingarnar eru úr stafrænu kerfi húsnæðisáætlana sem HMS heldur utan um og sýna niðurstöður úr áætlunum sveitarfélaga á ári hverju. Hægt er að smella á einstök sveitarfélög eða landshluta og sjá hvaða uppbygging er áætluð hvar.

Hér hægt að skoða íbúðir í byggingu.Upplýsingarnar koma úr mannvirkjaskrá HMS og uppfærast í rauntíma. Einnig er hægt að smella á hvert tiltekið verkefni í öllum helstu sveitarfélögum landsins og sjá hversu langt það er komið.

Fylgiskjöl:

Rammasamningur um aukið framboð íbúða á árunum 2023-2032, dagsettur 12. júlí 2022.

Minnisblað með húsnæðisáætlun RVK.

Húsnæðisáætlun Reykjavíkur, dagsett nóvember 2022.

Samkomulag um uppbyggingu í Reykjavík - Glærur.

Samkomulag um uppbyggingu íbúða, dagsett 5. janúar 2022.