17. ágú. 2016

100. fundur skólamálanefndar

  • Kaka

Skólamálanefnd sambandsins hélt sinn 100. fund sl. mánudag, 15. ágúst, en fyrsti fundur nefndarinnar fór fram 17. ágúst árið 2005. Í fyrstu nefndinni sátu þau Gunnar Einarsson, sem þá var sviðsstjóri fræðslusviðs í Garðabæ, Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri í Reykjavík og Gunnar Gíslason fræðslustjóri á Akureyri. Fljótlega komu fram ábendingar um að það vantaði málsvara dreifbýlisins inn í nefndina og á fyrsta fund ársins 2006 tók Kristín Hreinsdóttir, sem þá var framkvæmdastjóri Skólaskrifstofu Suðurlands, sæti í nefndinni.

Í dag er nefndin skipuð fimm fulltrúum, þeim Helgu Guðmundsdóttur, fræðslufulltrúa Fljótsdalshéraðs, Margréti Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar, Skúla Helgasyni, formanni skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, Þorsteini Hjartarsyni fræðslustjóra í Árborg  og Önnu Magneu Hreinsdóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Borgarbyggðar. Þess má geta að þau Anna Magnea og Þorsteinn voru að sitja sinn fyrsta skólamálanefndarfund en þau komu inn í stað sveitarstjóranna Karls Frímannssonar og Kolfinnu Jóhannesdóttur, sem bæði létu af þeim störfum fyrr á árinu.

Hlutverk skólamálanefndar er að vera stjórn og starfsmönnum til ráðgjafar í skóla- og fræðslumálum. Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi, er starfsmaður nefndarinnar og hefur verið frá upphafi. Þá sitja einstaka starfsmenn sambandsins úr skólateymi jafnframt fundi nefndarinnar.

Allar fundargerðir skólamálanefndar eru aðgengilegar á upplýsingavef sambandsins eftir að þær hafa verið lagðar fyrir stjórn til kynningar.

 

Skolamalanefnd

Þorsteinn Hjartarson, Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi sambandsins, Helga Guðmundsdóttir, Margrét Halldórsdóttir, Anna Magnea Hreinsdóttir og Skúli Helgason á 100. fundi skólamálanefndar.

Kaka