18. maí 2017

100 ára fullveldisafmæli – 1. desember 2018

Þann 1. desember 2018 verða liðin 100 ár frá því Íslendingar fögnuðu fullveldi. Í tilefni af því er gert ráð fyrir hátíðarhöldum víðs vegar um landið allt næsta ár.  Á þingfundi 22. desember 2016 kaus Alþingi, í samræmi við þingályktunartillögu þar um, sjö manna nefnd sem undirbúa á hátíðarhöldin. Meðal þess sem áhersla er lögð á í þingsályktuninni er að skólar verði hvattir til þess að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.

1. desember 1918, mynd af vefnum herdubreid.isÍ undirbúningsnefndinni eiga sæti: Einar K. Guðfinsson formaður, Þórunn Sigurðardóttir, Einar Brynjólfsson, Þorsteinn Sæmundsson, Páll Rafnar Þorsteinsson, Guðlaug Kristjánsdóttir og Kristján Möller. Framkvæmdastjóri verkefnisins er Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings.

Í fjárlögum er kveðið á um 200 milljóna króna fjárveitingu til verkefnisins sem deilist á árin 2017 og 2018 og á það að mæta útgjöldum vegna hátíðarhaldanna. Í ályktun Alþingis er m.a. kveðið á um að efnt verði til hátíðarfundar á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag var samningnum um fullveldi Íslands lokið. Einnig að ríkisstjórnin skuli efna til hátíðahalda 1. desember 2018, þegar öld er liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi

Þá hefur nefndin leitað eftir þátttöku skóla, sveitarfélaga og félagasamtaka og geta áhugasamir sótt um styrk til að minnast aldarafmælis fullveldisins.