Viðburðir
30.11.2017

UT dagurinn

Dagur upplýsingatækninnar 2017, UT-dagurinn, verður haldinn fimmtudaginn 30. nóvember nk. með ráðstefnu á Grand hóteli í Reykjavík.

Dagskrá UT dagsins

UT-dagurinn hefur verið haldinn árlega frá árinu 2006. Tilgangurinn er að fjalla um það sem er efst á baugi í upplýsingatæknimálum í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Mótun nýrrar stefnu um málefni upplýsingasamfélagsins hófst sl. vor og áformað er að ljúka henni fyrir árslok 2017. Nýverið hafa íslensk stjórnvöld skrifað undir tvær metnaðarfullar yfirlýsingar um rafræna stjórnsýslu.Annars vegar yfirlýsingu norrænu og baltnesku ríkjanna sem undirrituð var í apríl og hins vegar yfirlýsingu ESB/EES ríkjanna sem undirrituð var í Tallin 6. október 2017. Þessi framangreindu mál munu setja svip sinn á dagskrá UT-dagsins.

Niðurstöður úttektar kynntar á UT-deginum
Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar á UT-deginum. Fyrirhugað er að veita verðlaun fyrir stigahæstu vefina í almennu úttektinni, eins og undanfarin ár.

Nú stendur yfir í sjöunda sinn úttekt á opinberum vefjum ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga. Úttektin er mikilvæg leið til að fylgjast með og stuðla að þróun opinberra vefja. Samhliða þessari úttekt er nú  jafnframt gerð úttekt á öryggi opinberra vefja.

Alls eru um 240 vefir skoðaðir með tilliti til innihalds, nytsemi, aðgengis, þjónustu og lýðræðislegrar þátttöku á vefjum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur samið við fyrirtækið Sjá ehf. um þennan þátt úttektarinnar.

Fjölgað hefur ýmiss konar netárásum og netglæpum þar sem opinberir vefir eða vefir stórfyrirtækja eru oft skotmarkið og er öryggisúttektin liður í því að auka öryggi vefja. Úttektin hófst í júlí. Hefur ráðuneytið samið við Svavar Inga Hermannsson upplýsingaöryggissérfræðing um verkefnið. Verða vefirnir skannaðir með forritum til að kanna veikleika í öryggi þeirra. Auk þessarar skoðunar verða 40 vefir skoðaðir ítarlegar í því skyni að leita eftir hugsanlegum öryggisveikleikum. Ábyrgðarmenn vefjanna fá stutta skýrslu með ábendingum um veikleika og mögulegar úrbætur að lokinni úttekt.


Nánari upplýsingar