Úrgangsmál á Íslandi

Yfirlit

Hér fyrir neðan má finna upplýsingar um skipulag úrgangsmála á Íslandi. Annarsvegar almennt um stjórn og meðhöndlun úrgangs (kafli A) og hinsvegar það sem helst er á döfinni hverju sinni (kafli B).

A. Stjórnun úrgangsmála

     Meðhöndlun úrgangs

B. Um hauggas

     Meðhöndlun dýraleifa og sláturúrgangs

Stjórnun úrgangsmála

Meðhöndlun úrgangs er að stórum hluta á ábyrgð sveitarfélaga sem sjá um söfnun úrgangs frá heimilum og taka á förgunarstöðvum sínum á móti þeim úrgangi sem nýtist ekki.

Yfirvöld umhverfismála á Íslandi, umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun, setja markmið um frekari meðhöndlun úrgangs eftir að söfnun lýkur, samkvæmt eftirfarandi forgangsröð:

  1. Endurnotkun
  2. Endurvinnsla
  3. Endurnýting, þ.m.t. orkuvinnsla
  4. Förgun

Forgangsröðin byrjar reyndar á því að dregið verði úr myndun úrgangs og minnka þar með það álag á umhverfið sem meðhöndlun úrgangs veldur. Á næstu misserum verða settar fram áætlanir sem eiga að benda á raunhæfar leiðir til að draga úr myndun úrgangs og draga jafnframt úr skaðleika þess úrgangs sem myndast.

Endurnýtingarmarkmiðin eru sett fram í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs sem Umhverfisstofnun gefur út. Landsáætlun var fyrst gefin út árið 2004 til tólf ára og hefur verið í endurskoðun síðustu misserin.

Á grundvelli landsáætlunarinnar gefa sveitarfélög út svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs. Þau mega vinna að sameiginlegum svæðisáætlunum, t.d. innan byggðasamlaga.

Eftirfarandi er yfirlit yfir allar svæðisáætlanir.

Meðhöndlun úrgangs

Sveitarfélög bera ábyrgð á söfnun heimilisúrgangs en hafa flest látið hana í hendur fyrirtækja sem sérhæft hafa sig í meðhöndlun úrgangs. Þá hafa þau flest einnig ákveðið að fyrirtæki og stofnanir þurfi sjálf að sjá um úrgangur sé meðhöndlaður á viðeigandi hátt. Sá úrgangur sem ekki fer í endurvinnslu eða endurnýtingu endar á móttökustöðvum sveitarfélaga, sem eru aðallega urðunarstaðir. Úrgangur er einnig brenndur í fjórum brennslustöðvum, Í KÖLKU í Reykjanesbæ, í Vestmannaeyjum, á Kirkjubæjarklaustri og á Húsavík, þar sem einhver orka úr úrgangi er nýtt. Mikilar breytingar hafa orðið á meðhöndlun úrgangs á síðustu áratugum, frá því að honum var fyrst og fremst eytt þar til að meirihluti hans er nú á dögum með mismunandi hætti endurnýttur.

Upplýsingar um breytingar á meðhöndlun úrgangs milli áranna 1995 og 2008 má finna í tölum og mynd

Um hauggas

Þann 16. júlí 2009 áttu allir starfandi urðunarstaðir að hafa komið sér upp hauggassöfnun. Í athugun Umhverfisstofnunar árið 2003 hafði hinsvegar komið fram að hauggasmyndun væri lítil sem engin á flestum af minni urðunarstöðum. Til að fá ákveðnari vísbendingar um hauggasmyndun og möguleika á að safna gasinu stofnaði Samband íslenskra sveitarfélaga á árinu 2009 verkefni um hauggasmyndun þar sem mælingar á hauggassi voru endurteknar á þeim urðunarstöðum sem mælt var á árinu 2003 og voru enn starfandi árið 2009. Þetta var unnið sem 4. árs nemendaverkefni í samvinnu við Háskóla Íslands, verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið EFLU og Umhverfisstofnun á árinu 2010. Niðurstöður verkefnisins voru svo birtar semritgerð og viðauka við hana í maí 2011.

Helstu niðurstöður voru þær að hauggasmyndun væru það lítil á átta af þeim tíu urðunarstöðum sem verkefnið náði til, að hauggassöfnun myndi ekki skila neinum umhverfislegum ávinningi og jafnvel tæknilega óframkvæmanleg. Á einum stað er hauggassöfnun tæknilega framkvæmlanleg og líklega til að skila umhverfislegum ávinningi en á einum stað þarf að rannsaka betur hvort hauggassöfnun eða einhver önnur leið til að ná utan um losun metans sé hagkvæmari. Til að meta niðurstöðurnar, veita leiðbeiningar og ráðgjöf um möguleika til að bregðast við stöðunni eins og hún er á Íslandi var sótt um sérfræðiaðstoð hjá Evrópusambandinu í tengslum við TAIEX áætlunina. Undir árslok 2011 komu hingað til landsins tveir sérfræðingar í hauggasmálum frá Evrópu, þeir Heijo Scharff frá Afvalzorg í Hollandi og Jörgen Hansen frá Miljöstyrelsen í Danmörku. Þeir heimsóttu tvo urðunarstaði go höfðu umsjón með málstofu um hauggasmyndun og möguleikum á að takmarka losun metans. Niðurstöður þeirra má finna í þessari skýrslu.   

 

Málþing um hauggas haldið 1. desember 2011.

 

Meðhöndlun dýraleifa og sláturúrgangs

Með dýraleifar og slátúrúrgang fer skv. ákvæðum reglugerðar nr. 820/2007. Með reglugerð nr. 881/2010 sem gefin var út í október 2010 var þessari reglugerð breytt, m.a. voru sett inn ákvæði um að ekki mætti nota land til matvælaframleiðslu eða búfjárbeitar í 10 ár eftir á afurðir úr endurvinnslu lífræns úrgangs sem inniheldi sláturúrgang hefðu verið bornar á það. Fulltrúar sveitarfélaga og rekstraraðilar endurvinnslustöðvar á vegum þeirra mótmæltu þessari breytingu. Gildistaka þessa ákvæðis hefur verið frestað fjórum sinnum frá október 2010 og ákveðið að hún skuli nú vera 1. apríl 2012. Myndaður var samráðshópur til að finna ásættanlega lausn, í honum eru fulltrúa sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Samtaka iðnaðarins og Bændasamtaka. Samráðshópurinn hefur alls hist 9 sinnum en ekki hefur enn tekist að finna lausn. Nú er beðið eftir að ráðuneytisstjórar umhverfis- og landbúnaðarráðuneytis ræði sín á milli um lausn á nýtingu dýraleifa og sláturúrgangs.

Hér má sjá fundarnotur samráðshópsins.

Á 9. fundi samráðshópsins létu fulltrúar sambandsins bóka eftirfarandi:

1. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa á síðastliðnu ári setið 8 fundi ásamt öðrum hagsmunaaðilum til að vinna að sameiginlegum tillögum um nýtingu lífræns úrgangs. Fulltrúar sambandsins töldu að náðst hefði samkomulag um ásættanlega kröfu til nýtingar á fullunnum afurðum jarðgerðarstöðva og kjötmjölsvinnslu. Því mótmæla þeir harðlega tillögum MAST sem fram hafa komið á fundi umhverfisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og ekki hafa verið ræddar í  samráðshópnum áður. 

2. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga telja að það sé með öllu óásættanlegt að nú séu komnar fram tillögur sem ekki hafa fengið umfjöllun í samráðshópnum. Einnig er rökstuðningi og skýringum fyrir framkomnum tillögum  verulega ábótavant. Þess vegna hafna fulltrúar sambandsins þessum tillögum og fara fram á að þær verði dregnar til baka og að ofangreint samkomulag fái að standa óhaggað. Ef samráðshópurinn hyggst breyta þessu samkomulagi krefjast fulltrúar sambandsins að unnið verði áhættumat og kostnaðargreiningu vegna þeirra breytinga.