Íslenska sveitarstjórnar-stigið í megindráttum í samræmi við Evrópu-sáttmála um staðbundið lýðræði

Á vorþingi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem haldið var 28.-30. mars 2017 voru m.a. samþykktar skýrslur um stöðu sveitarstjórnarstigsins  gagnvart Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga í Finnlandi, Eistlandi, Möltu og Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar um Ísland eru í megindráttum jákvæðar. Þó er vakin athygli á gráum svæðum á milli ríkis og sveitarfélaga, að endurskoða þurfi jöfnunarkerfið og ófullnægjandi fjárveitingum til að standa undir nýjum verkefnum og öðrum verkefnum en lögbundnum.

Halldór Halldórsson formaður íslensku sendinefndarinnar tók undir niðurstöður skýrslunnar. Jón Gunnarsson ráðherra sveitarstjórnarmála lýsti í ræðu sinni yfir vilja til að ráðast gegn gráum svæðum og að fara yfir fjárhagsstöðu sveitarfélaga í ljósi ábendinga í skýrslunni í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann sagði einnig frá því að hann hefði kynnt fyrir landsþingi sambandsins hugmyndir um endurskoðun jöfnunarkerfisins þannig að það geti stutt betur við sameiningar sveitarfélaga.