Spurt og svarað um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga

Svör við spurningum miðast við breytingu sem gerð var á  lögum um málefni fatlaðs fólks  með samþykkt Alþingis þann 17. desember 2010.

Efnisflokkar:
Hlutverk sveitarfélaganna eftir yfirfærslu
Málsmeðferð og réttarstaða notenda
Sértækt mat á þjónustuþörfum
Upplýsingakerfi
Stjórnsýsla
Stofnskjöl þjónustusvæða
Húsnæðismál
Jöfnunarkerfi Fjármál og umsýsla eigna
Réttindagæsla fólks með fötlun og annað eftirlit
Ferðaþjónusta fatlaðra
Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Notendastýrð persónuleg aðstoð
Málefni fatlaðra barna
Fjárhagsáætlanagerð
Forsendur yfirfærsluferlisins og mat á árangri
Starfsmannamál
Bókhaldslyklar
Fjármál og umsýsla eigna
   

Hlutverk sveitarfélaganna eftir yfirfærslu á málefnum fatlaðra – þjónustuveitendur og stjórnvöld 

1.  Hvað felst í því að sveitarfélögin verði þjónustuveitendur?

Það að sveitarfélögin bera ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar og að þörf hvers einstaklings fyrir aðstoð sé metin. Veitt þjónusta skal vera í samræmi við þau lögbundnu markmið í 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. (17. des. 2010)

2.  Hvað felst í því að sveitarfélögin verði stjórnvöld?

Það að sveitarfélögin bera ábyrgð á skipulagi og kostnaði vegna þjónustunnar auk þess sem það er hlutverk sveitarfélaga að taka formlegar ákvarðanir um lögbundinn rétt einstaklinga til tiltekinnar þjónustu. Þessar formlegu ákvarðanir verða kæranlegar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála um sem starfar á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sjá nánar 5. gr.  a lögum um málefni fatlaðs fólks . (22. des. 2010)

3.  Hvernig breytast þessi hlutverk við yfirfærsluna?

Mörg sveitarfélög hafa verið þjónustuveitendur í málaflokknum til margra ára, fyrst sem reynslusveitarfélög en síðan á grundvelli þjónustusamninga við ríkið. Akureyrarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður og sveitarfélög á Norðurlandi vestra eru meðal þessara sveitarfélaga. Um áramót taka þessi sveitarfélög, eins og önnur, við hlutverki stjórnvalda í málaflokknum.

Miðað er við að samningar ríkisins við sjálfseignarstofnanir og félagasamtök um rekstur úrræða fyrir fatlað fólk flytjist að mestu yfir til sveitarfélaga. Samskipti þessara aðila við hið opinbera byggjast því áfram á sama grunni og verið hefur þótt aðild að samningnum breytist. (23. nóv. 2010)

4.  Verða sveitarfélögin þá stjórnvöld í öllu sem viðkemur fötluðu fólki?

Nei, skv. 1. gr. heildarsamkomulags ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna taka sveitarfélög við ábyrgð á tilteknum þáttum. Undanskildir eru: öll þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, öll þjónusta þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda,  ábyrgð á umönnunargreiðslum og greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, ábyrgð á styrkjum vegna bifreiðakaupa sem forsjármenn barna með fötlun eiga rétt á, ábyrgð á niðurfellingu bifreiðagjalda, ábyrgð á greiðslu kostnaður vegna ferða fólks með fötlun frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og fullorðinsfræðsla fólks með fötlun.

Þessi þættir eru allir samkvæmt lögum sem stjórnvöld ríkisins munu framkvæma áfram eins og verið hefur. Þá mun ríkið áfram bera ábyrgð á réttindagæslu fatlaðra.

Rétt er að taka fram að sveitarfélögin munu frá áramótum fara með mat á umönnunarþörf fatlaðra barna, og geta falið teymi fagfólks að annast matið skv. 4. mgr. 5. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. (19. des. 2010)

5.  Hver verður staðan eftir yfirfærsluna varðandi vinnumarkaðsúrræði fyrir fatlaðra?

Gengið hefur verið út frá því að fatlað fólk eigi eins og aðrir rétt á vinnumarkaðsaðgerðum og aðgang að vinnumarkaðsúrræðum, skv. lögum þar að lútandi. Er það í samræmi við stefnu sem mörkuð var árið 2006. Í lögum um málefni fatlaðs fólks er því lagt til að Vinnumálastofnun annist framkvæmd á vinnumarkaðsaðgerðum fyrir fatlaða (sjá  21. gr. ) Þá er um það samið í 1. gr. heildarsamkomulagsins að samningsaðilar muni vinna að framtíðarverkaskiptingu sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar á sviði atvinnumála fatlaðra. Er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun muni gera samninga við sveitarfélög m.a. um framkvæmd AMS-verkefnisins (atvinna með stuðningi). Reykjavíkurborg mun gera slíkan samning við Vinnumálastofnun vegna ársins 2011. Þá er miðað við að sveitarfélög sem annast hafa AMS-verkefnið sem þjónustuveitendur muni geta haldið því áfram.   

Vinnusamningar öryrkja verða áfram á forræði Tryggingastofnunar ríkisins.  (17. des. 2010)

6.  Hvað verður um sérstaka liðveislu á vinnustað og verndaða vinnu?

Í frumvarpinu er kveðið á um sérstaka liðveislu á vinnustað  (sjá 22. gr. ) og verndaða vinnu (sjá 23. gr. ) en jafnframt tekið fram í bráðabirgðaákvæði V að sérstaklega verði samið um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig farið verði með þessa þætti á árinu 2011. Í 1. gr. heildarsamkomulags segir þannig að sérstök liðveisla á vinnustað og vernduð vinna séu meðal þeirra þjónustuþátta sem sveitarfélögin taka við 1. janúar 2011. Engu síður gerir samkomulagið ráð fyrir að Hringsjá – náms og starfsendurhæfingTölvumiðstöð fólks með fötlun, Múlalundur, Blindravinnustofan og Vinnustaðir Öryrkjabandalags Íslands verði á málefnasviði velferðarráðuneytis frá næstu áramótum. Jafnframt er tekið fram að samningsaðilar muni vinna að framtíðarverkaskiptingu sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar á sviði atvinnumála fólks með fötlun. (29. nóv. 2010)

7.  Hver verður staða eininga þar sem atvinnutengd endurhæfing er samtvinnuð annarri þjónustu?

Unnið verður að því á næstu mánuðum að skýra stöðu þessara blönduðu þjónustueininga  en sveitarfélög munu í flestum tilvikum taka við aðild að gildandi þjónustu- og samstarfssamningum vegna þeirra. Starfshópur mun síðan fara yfir og skilgreina hvað telst vera atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa í skilningi laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Fram kom í skýringum við 17. gr. frv. að  hópurinn eigi að ljúka þessu verki fyrir árslok 2011. (2. des. 2010)

8.  Verður sveitarfélagið þá vinnuveitandi þeirra sem starfa á blönduðum þjónustueiningum?

Nei. Þótt sveitarfélög taki við aðild að gildandi þjónustu- og samstarfssamningum um áramót felst ekki í því að sveitarfélagið verði vinnuveitandi þeirra sem starfa við einingarnar (hvorki starfsmanna né skjólstæðinga). (23. nóv. 2010)

Málsmeðferð og réttarstaða notenda

1. Hvaða reglur gilda um samráð við notendur? 

Í lögum um málefni fatlaðs fólks og öðrum lagaákvæðum er lögð rík áhersla á samráð við notendur og að þeir taki þátt allri meðferð mála sem þá varðar. Af hálfu hagsmunasamtaka notenda er mikið lagt upp úr að sveitarfélög virði þessa samráðsskyldu. (22. des. 2010)

2.  Hvenær er sveitarfélagi skylt að veita notanda andmælarétt?  

Áður en tekin er formleg ákvörðun um lögbundinn rétt notanda til tiltekinnar þjónustu (þ.e. stjórnvaldsákvörðun) á alltaf að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Í því felst að notandinn á að njóta andmælaréttar og fá aðgang að öllum upplýsingum sem aflað hefur verið, m.a. niðurstöðu mats um þörf hans fyrir aðstoð (sjá 5. gr. laganna) og greiningu á því hvaða úrræði geti svarað þeirri þörf. (22. des. 2010)

3.  Felur þá niðurstaða matsins í sér stjórnvaldsákvörðun? 

Nei, að öllu jöfnu felur hvorki matsniðurstaða né greining í sér eiginlega stjórnvaldsákvörðun. Þessa þætti er því ekki hægt að kæra sjálfstætt til úrskurðarnefndar. Hins vegar er sérstaklega kveðið á um það í lögum, sbr. 5. gr. laganna, að samráð skuli haft við hinn fatlaða eða aðstandanda hans við matið. (22. des. 2010)

4.  En er hægt að kæra útfærslu á þjónustu? 

Hvorki stjórnsýslulög né kæruheimildir taka til eiginlegrar þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera. Sem dæmi má nefna að ákvörðun þess efnis að einstaklingur skuli njóta frekari liðveislu telst stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og er kæranleg. Það hvernig þjónustan er síðan nánar útfærð (m.a. fjöldi skipta) telst til þjónustustarfsemi. (23. nóv. 2010)

5.  Er hægt að kæra það ef mál dregst á langinn? 

Já, ef niðurstaða mats og greiningar liggur fyrir ber sveitarfélagi eða þjónustusvæði að taka ákvörðun um það hvort notandinn eigi lögbundinn rétt notanda til tiltekinnar þjónustu (m.a. frekari liðveislu eða þjónustu á heimili sínu). Ef óhæfilegur dráttur verður á þessari ákvörðun getur notandi kært það til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála skv. stjórnsýslulögum. (22. des. 2010)

6.  Er hægt að kæra það notandi sé settur á biðlista eftir þjónustu? 

Lög gera ráð fyrir að það sé fyrst og fremst synjun á þjónustu sem er kæranleg. Biðlisti felur ekki í sér að þjónustu sé synjað, heldur að bið verði á veitingu hennar. Staða á biðlista er því almennt ekki kæranleg en hugsanlegt er að notandi geti leitað álits á því hvort jafnræðisreglna sé gætt þegar unnið er úr biðlistum. (23. nóv. 2010)

7.  Hvaða hlutverk hefur trúnaðarmaður fatlaðra í mats- og greiningarferlinu? 

Það leiðir af 29. gr. laganna að trúnaðarmenn gæta sérstaklega að hagsmunum notenda í mats- og greiningarferlinu. Samkvæmt þessu ákvæði geta trúnaðarmenn tilkynnt um mál til velferðarráðuneytis. (22. des. 2010)

Sértækt mat á þjónustuþörfum  

1.  Munu allir notendur þjónustu við fatlað fólk fara í gegnum sértækt mat á þjónustuþörfum?

Nei, gert er ráð fyrir að einungis þeir notendur sem hafa mestar þjónustuþarfir fari í gegnum sértækt mat. Ástæðan er m.a. sú að jöfnunarkerfið í málaflokknum mun byggja á þeim 1.000 einstaklingum sem mestar hafa þarfirnar. Allir notendur munu hins vegar fara í gegnum grunnathugun hjá félagsþjónustunni á viðkomandi svæði. (23. nóv. 2010)

2.  Hvenær munu þjónustusvæðin 15 fá til sín niðurstöður matsins sem framkvæmt er fyrir þá sem eru notendur að svæðisskrifstofanna við yfirfærsluna?

Reiknað er með því að þessu mati ljúki fyrir áramót og að stjórnir þjónustusvæðanna hafi þá fengið niðurstöður matsins til sín. Notendur og talsmenn þeirra fá einnig niðurstöður matsins. (22. des. 2010)

3.  Hvenær verður matið framkvæmt fyrir þá sem eru á biðlista við yfirfærsluna?

Þegar mati á notendum lýkur um áramótin mun sá  sérfræðingahópur sem annast verkið snúa sér að þeim sem eru á biðlista. Þess er vænst að mati á þessum hópi ljúki fyrir mitt ár 2011. (22. des. 2010)

4.  Hvernig verður matinu háttað fyrir þá sem bætast nýir í hóp notenda eftir yfirfærsluna?

Matið er m.a. framkvæmt til þess að vera grundvöllur jöfnunaraðgerða og því er mikilvægt að matið sé samræmt fyrir allt ferli yfirfærslunnar. Gert er ráð fyrir að sértæka matið verði unnið með sama hætti áfram á tímabilinu 2011 til 2014, þ.e. að miðlægt matsteymi sinni verkefninu, bæði fyrir nýja notendur og endurmati á þeim sem þegar hafa verið metnir. Þegar reynslutíma yfirfærslunnar lýkur í árslok 2014 mun matið hafa staðið yfir samfellt frá miðju ári 2010. (23. nóv. 2010)

5.  Hvernig á að bregðast við ef notandi vill ekki taka þátt í sértæku mati á þjónustuþörfum?

Hvorki lög né reglugerðir munu skylda notanda til þess að taka þátt í sértæka matinu. Notandi fer hins vegar alltaf í gegnum grunnathugun enda er sú athugun nauðsynleg til þess að vinna megi úr umsókn um þjónustu. Leiði grunnathugun í ljós þjónustuþarfir sem eru verulega umfram þau úrræði sem félagsþjónustan almennt sinnir er næsta skref að framkvæma sértækt mat. Frekari úrræða byggjast á þessu sértæka mati, enda er fjármögnun þeirra að öllu jöfnu háð því að þjónustuþyngd hafi verið metin. Rétt er að benda notanda á að vilji hann ekki taka þátt í matinu, geti sú afstaða fækkað þeim úrræðum sem honum standa til boða. (23. nóv. 2010)

6.  Hver er munurinn á grunnathugun og sértæku mati á þjónustuþörfum?

Í grunnathugun felst að aflað er grunnupplýsinga um félagslegar aðstæður notanda. Athugunin byggir á því að hann hafi lagt inn umsókn um aðstoð skv. lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Aflað er upplýsinga um félagslegar aðstæður umsækjanda, menntun og heilsufar. Einnig hvaða aðstoð er líkleg til þess að svara þjónustuþörf.

Í sértæku mati á þjónustuþörfum felst að aflað er upplýsinga um þjónustuþyngd. Frá sumri 2010 hafa verið þróaðir mælikvarðar sem byggðir eru á svonefndu SIS-mati. Frekari aðlögun mælikvarða mun eiga sér stað líkt og reyndin hefur orðið með önnur sértæk matskerfi (sjá til dæmis RAI sem leggur mat á heilsufar og aðbúnað íbúa í hjúkrunarrýmum).  (23. nóv. 2010)

Upplýsingakerfi

1.  Koma sérstök fjárframlög til sveitarfélaga til þess að standa straum af kostnaði við flutning upplýsinga milli kerfa?

Já, í fjárhagsramma (sjá viðauka 4 við heildarsamkomulag) er reiknað með framlagi á fjárlögum ársins 2011 (og einnig 2012 og 2013) vegna breytingakostnaðar. Þessu framlagi verður varið í nokkra þætti, og er kostnaður við að færa upplýsingar á milli kerfa þar á meðal. Sveitarfélög og þjónustusvæði geta því vænst þess að fá framlög í hlutfalli við umfang og að teknu tilliti til þess hvaða upplýsingakerfi eru í notkun. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að þessi framlög greiði stofnkostnað sveitarfélaga við upplýsingakerfi eða nauðsynlega aðlögun á þeim kerfum sem þau eru með fyrir. (23. nóv. 2010)

2.  Sveitarfélög geta fengið tímabundinn aðgang að Grósku, þó svo þau ætli ekki að nota kerfið sem skjala- og málakerfi.  Telst þessi tímabundni aðgangur til breytingakostnaðar?

Gert er ráð fyrir að þessi kostnaður teljist til breytingakostnaðar.

 

Stjórnsýsla

1.  Þurfa sveitarstjórnir að setja sér einhverjar reglur um málefni fatlaðra fyrir áramót?

Nei, framkomin frumvörp miða ekki við að einstakar sveitarstjórnir setji sér neinar reglur fyrir áramót. Hins vegar er gert ráð fyrir því í 10. gr. laga að velferðarráðherra setji reglugerð um húsnæðisúrræði og að sú reglugerð taki gildi um áramótin. Þessi reglugerð mun leysa af hólmi eldri búsetureglugerð. (17. des. 2010)

2.  Hvernig á að samþætta málefni fatlaðra inn í þær reglur sem eru til staðar?

Eðlilegt er að sveitarstjórnir setji vinnu af stað í kringum áramót við að endurskoða gildandi reglur með tilliti til yfirfærslunnar. Einkum ætti að athuga reglur um félagslegt leiguhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi og almennar reglur um veitingu félagsþjónustu. Velferðarráðuneytið mun gefa út leiðbeinandi reglur í þessu efni. (23. nóv. 2010)

3.  Hvaða leiðbeinandi reglur eru það sem velferðarráðuneytið gefur út eftir áramót?

Eins og fram kemur er um leiðbeiningar að ræða en markmið þeirra er einkum að tryggja samræmi í þjónustu við fólk með fötlun milli þjónustusvæða og þar með á landsvísu. Reglurnar varða m.a. þjónustu stuðningsfjölskyldna ( 14. gr. laga), aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar ( 20. gr. laga) og rekstur ferðaþjónustu ( 27 gr. laga). Þessar reglur eru ekki birtar með lögformlegum hætti en verða aðgengilegar sveitarstjórnum sem og almenningi á vef ráðuneytisins. (22. des. 2010)

4.  Getur sveitarstjórn vikið frá leiðbeinandi reglum?

Þessar reglur eru ekki bindandi fyrir sveitarfélögin heldur eingöngu til leiðbeiningar en engu að síður er mælst til þess að sveitarstjórnir hafi hliðsjón af efni þeirra við setningu eigin reglna um framkvæmd þjónustu við fólk með fötlun. Ráðuneytið mun einnig gæta þess að upplýsa sveitarfélögin um þær breytingar sem gerða verða á leiðbeinandi reglum eftir að þær eru fyrst gefnar út. (23. nóv. 2010)

5.  Frá hvaða lögformlegum atriðum þurfa sveitarfélög að ganga frá fyrir áramót?

Sveitarfélögin þurfa að ganga formlega frá stofnskjölum þjónustusvæða fyrir áramót og ljúka gerð samninga þar sem það á við. Sambandið mun láta í té fyrirmyndir að stofnskjölum sem notast má við.

Í stofnskjölum er gert ráð fyrir að þjónustusvæði framfylgi innra eftirliti m.a. með því að skrá verklag um nokkra þætti. Þessir þættir snúa að meðferð persónuupplýsinga, málsmeðferð stjórnvaldsákvarðana, ráðningu starfsfólks og endurmat á þjónustu. Ný þjónustusvæði munu væntanlega ekki ljúka við skráningu þessa verklags fyrr en eftir áramót en sambandið mun láta í té fyrirmyndir að textum sem notast má við. (17. des. 2010)

Stofnskjöl þjónustusvæða

1.  Hvað þarf að koma fram í stofnskjölum þjónustusvæða?

Samkvæmt 6. gr. laga veitir stofnskjalið yfirlit um skipulag sérhvers þjónustusvæðis. Þar sem eitt sveitarfélag stendur að þjónustusvæði gengur það sveitarfélag frá stofnskjalinu. Þar sem fleiri sveitarfélög standa saman að þjónustusvæði er stofnskjalið útbúið og áritað. Sá sem áritar skjalið ber ábyrgð á því að það sem þar kemur fram sé rétt. Fyrirmynd að stofnskjali er á vef sambandsins en bent er á að stofnskjalið getur einnig verið fylgiskjal með samningi milli sveitarfélaga og með tilvísunum til samningsákvæða. (17. des. 2010)

2.  Hvert á að senda stofnskjalið?

Þegar stofnskjalið hefur verið útfyllt og áritað er afrit þess sent til félags- og tryggingamálaráðuneytis (velferðarráðuneyti eftir áramót) og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Verði breytingar á skipulagi þjónustusvæðis, þannig að uppfæra þurfi upplýsingar í stofnskjali, skal gengið frá þeim breytingum með sama hætti og upprunalega skjalinu og afrit af nýju skjali síðan sent ráðuneytinu. (17. des. 2010)

3.  Þarf að upplýsa ráðuneytið og Jöfnunarsjóð um allar breytingar á samningum milli sveitarfélaga?

Nei, einungis ef breyting á samningi snertir upplýsingar í stofnskjali. Sem dæmi má nefna að ekki þarf að upplýsa um breytingar á fjölda fulltrúa í stjórn þjónustusvæðis eða byggðasamlags. Hins vegar þarf að upplýsa ráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um það ef ný stofnun tekur til starfa innan þjónustusvæðisins. (17. des. 2010)

4.  Hvað þarf að koma fram í stofnskjölum þjónustusvæða?

Samkvæmt 6. gr. laga veitir stofnskjalið yfirlit um skipulag sérhvers þjónustusvæðis. Þar sem eitt sveitarfélag stendur að þjónustusvæði gengur það sveitarfélag frá stofnskjalinu. Þar sem fleiri sveitarfélög standa saman að þjónustusvæði er stofnskjalið útbúið og áritað. Sá sem áritar skjalið ber ábyrgð á því að það sem þar kemur fram sé rétt. Fyrirmynd að stofnskjali fyrir eitt sveitarfélag og fyrirmynd að stofnskjali fyrir fleiri en eitt sveitarfélag er á vef sambandsins en bent er á að stofnskjalið getur einnig verið fylgiskjal með samningi milli sveitarfélaga og með tilvísunum til samningsákvæða. (17. des. 2010)

Húsnæðismál

1.  Hvaða breytingar verða á fyrirkomulagi húsnæðismála við yfirfærsluna?

Fasteignir sem ríkið hefur nýtt í þágu þjónustu við fatlaða færast yfir til sérstaks fasteignasjóðs sem stofnaður verður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fasteignasjóðurinn fer með réttindi og skyldur er tengjast fasteignunum. (23. nóv. 2010)

2.  Hvaða hlutverki er fasteignasjóðnum ætlað að gera?

Starfsemi fasteignasjóðsins skal miða að því að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga vegna fasteigna sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða. Í því skyni er fasteignasjóðnum heimilt að leigja sveitarfélögum og rekstrar- eða þjónustuaðilum fasteignir til afnota fyrir þjónustu við fatlaða. Enn fremur er fasteignasjóðnum heimilt að selja sveitarfélögum, rekstrar- og þjónustuaðilum, rekstrarfélögum félagslegs húsnæðis eða íbúum fasteignir og semja um greiðslukjör, Þá er fasteignarsjónum heimilt að selja fasteignir á frjálsum markaði hafi sveitarfélög ekki þörf fyrir að nýta þær. (23. nóv. 2010)

3.  Hvað tilkynningar fá þeir sem nú búa í húsnæðisúrræðum á vegum svæðisskrifstofa?

Allir notendur húsnæðisúrræða á vegum svæðisskrifstofa eiga að vera með húsaleigusamning sem gerður er skv. húsaleigulögum. Með yfirfærslunni færist aðild að samningunum yfir til hlutaðeigandi sveitarfélags og verður það leigusali, nema sérstaklega sé gengið frá annarri skipan, t.d. að aðildin verði í höndum fasteignafélags á vegum sveitarfélags eða byggðasamlags. Svæðisskrifstofur munu tilkynna notendum (leigjendum) um að nýr aðili hafi tekið yfir aðild að samningnum. (23. nóv. 2010)

4.  Hvernig er sú leigufjárhæð ákveðin sem sveitarfélögin eiga að innheimta ?

Sveitarfélög innheimta frá yfirfærslunni húsaleigu í samræmi við gildandi húsaleigusamning og með þeim breytingum sem orðið hafa á fjárhæð í samningnum skv. reglugerðum sem settar hafa verið. Hér er vísað til þess að í 10. gr. laga segir að velferðarráðherra setji reglugerð um húsnæðisúrræði, þar sem meðal annars er mælt fyrir um það hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð. Reiknað er með að þessi reglugerð taki gildi um áramótin og leysi af hólmi eldri búsetureglugerð. (22. des. 2010)

5.  Sjá notendur einhverja breytingu á leigufjárhæðum strax um áramótin?

Um það atriði verður fjallað í nýrri reglugerð velferðarráðherra, sem birt verður eigi síðar en 29. desember n.k., en ekki er gert ráð fyrir að nein hækkun verði um áramótin. Húsaleiga mun hins vegar fyrirsjáanlega á næstu tveimur árum færast jafnt og þétt nær viðmiðum sveitarfélaganna um leiguverð í félagslegu leiguhúsnæði. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög tilkynni leigjendum um hækkun í hverjum áfanga með að minnsta kosti tveggja mánaða fyrirvara. (17. des. 2010)

6.  Mega sveitarfélögin segja upp húsaleigusamningum sem þau yfirtaka?

Já uppsögn er möguleg, en þá verður að fylgja reglum húsaleigulaga. Vinnan í undirbúningi yfirfærslunnar hefur hins vegar miðast við það, að ekki þurfi að koma til uppsagnar vegna yfirfærslunnar. Breyttar forsendur til framtíðar varðandi einstök húsnæðisúrræði geta kallað á uppsögn húsaleigusamnings, en nauðsynlegt er þá að hafa samráð við fatlaðan einstakling og væntanlegt sambýlisfólk hans í öðru úrræði áður en ákvörðun er tekin, sbr. 4. gr. laga. (17. des. 2010)

Jöfnunarkerfi

1.  Hverjar verðar úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðra?

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (innanríkisráðherra frá áramótum) mun setja reglugerðir um úthlutun jöfnunarframlaga. Jöfnunarkerfi málaflokksins er hins vegar samningsatriði milli ríkis og sveitarfélaga og er frá því gengið í 6. og 7. gr. heildarsamkomulagsins (sjá einnig viðauka 6 ). (23. nóv. 2010)

Réttindagæsla fólks með fötlun og annað eftirlit

1.  Hver mun sjá um réttindagæslu fólks með fötlun eftir yfirfærsluna? 

Eiginleg réttindagæsla fólks með fötlun verður áfram verkefni ríkisins samkvæmt 29. gr. laga. Velferðarráðherra mun skipa trúnaðarmenn fatlaðra sem starfa á þjónustusvæðunum og munu m.a. gæta að meðferð fjármuna og öðrum slíkum einkamálefnum notenda. (22. des. 2010)

2.  Hvernig verður því fylgt eftir að fatlað fólk njóti lögboðinna réttinda og þjónustu? 

Eftirfylgni með því að fatlað fólk njóti réttinda og þjónustu í samræmi við lög og reglur á hverju þjónustusvæði snýr fyrst og fremst að sveitarfélögunum sem bera ábyrgð á skipulagi, framkvæmd og gæðum þjónustunnar. Sveitarfélagi ber að bregðast við rökstuddum ábendingum frá notanda eða hagsmunasamtökum um að misbrestur sé á þjónustu. (23. nóv. 2010)

3.  Hver mun fylgjast með réttindum fatlaðs fólks á vinnumarkaði? 

Atvinnumál fólks með fötlun verða verkefni ríkisins eftir yfirfærslu, þar með sérstök liðveisla á vinnustað. Samkvæmt 21. gr. laga mun Vinnumálastofnun annast vinnumarkaðsúrræði. Jafnframt er ráðgert að Vinnumálastofnun, sem þjónustukaupandi, gera samninga við sveitarfélög um atvinnu með stuðningi (AMS) og aðra þjónustu sem sveitarfélög veita. Stefnt er að samþættingu þjónustu sveitarfélaga og atvinnutengdrar endurhæfingar þar sem það er hentugt. Sveitarfélög verða hins vegar ekki vinnuveitendur fatlaðra á vinnumarkaði nema sérstaklega sé um það samið. (22. des. 2010)

4.  Hver annast eftirlit með sjálfstæðum rekstraraðilum?

Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög geri samninga við sjálfseignarstofnanir og hliðstæða aðila um rekstur stofnana, húsnæðisúrræða og annarra rekstrareininga, þar sem fatlað fólk fær þjónustu. Í þessum samningum verður fjallað um eftirlit af hálfu hlutaðeigandi sveitarfélags / þjónustusvæðis. Velferðarráðuneytið mun einnig hafa eftirlit með því að þjónusta og rekstur sjálfstæðra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Ráðuneytið getur hlutast til um úttektir í þessu skyni. (17. des. 2010)

5.  Hvaða upplýsingar ber sveitarfélögunum að veita ráðuneytum?

Sveitarfélögum ber að veita velferðarráðuneyti allar upplýsingar sem þörf er á til þess að ráðuneytið geti sinnt eftirlitsskyldu sinni lögum samkvæmt. Nánar verður fjallað um upplýsingaskyldu sveitarfélaga í reglugerð, þar sem m.a. verður tekið á því hvaða upplýsingar sveitarfélög láti ráðuneytinu í té um sjálfstæða rekstraraðila. (17. des. 2010)

6.  Hvaða upplýsingar ber sjálfstæðum rekstraraðilum að veita sveitarfélögum?

Félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða aðrir einkaaðilar sem vilja hefja eða taka við rekstri þjónustustofnunar eða húsnæðisúrræða þurfa starfsleyfi. Gert er ráð fyrir að sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustu, veiti þessi starfsleyfi fyrir stofnanir og úrræði á sínu svæði. Á grundvelli starfsleyfisins er gerður samningur þar sem ítarlega skal mælt fyrir um skyldur rekstraraðilans, m.a. varðandi upplýsingagjöf. (17. des. 2010)

7.  Nær upplýsingaskylda rekstraraðila líka til bókhaldsgagna?

Sérstaklega er vikið að því í 31. gr. laga að tekjur, sem falla til vegna atvinnustarfsemi þjónustu- eða rekstraraðila sem nýtur framlaga frá sveitarfélögum eða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, vegna framkvæmdar á þjónustu á grundvelli laganna skuli renna til greiðslu rekstrarkostnaðar starfseminnar. Opinber fjárframlög skulu taka mið af þessum tekjum og er umræddum aðilum skylt að veita allar þær bókhaldsupplýsingar sem þörf er á til þess að staðreyna megi tekjur og rekstrarkostnað. (17. des. 2010)

Ferðaþjónusta við fatlað fólk

1.  Hefur yfirfærslan áhrif á ferðaþjónustu við fatlað fólk?

Yfirfærslan hefur í sjálfu sér ekki bein áhrif á ferðaþjónustu fatlaðra og munu sveitarfélög áfram sjá um þann þátt eins og verið hefur. Reglur einstakra sveitarfélaga um þjónustuna munu hins vegar koma til endurskoðunar eftir gildistöku laganna og verður þá stuðlað að samræmingu m.a. með útgáfu leiðbeininga eins og vikið er að í 27. gr. laga. Eins geta þjónustusvæði sameinast um að setja reglur sem gildi fyrir allt svæðið. (22. des. 2010)

2. Þarf að breyta gjaldskrám?

 Við lokaafgreiðslu Alþingis á frumvarpi til breytínga á lögum um málefni fatlaðs fólks þann 17. desember 2010 var því bætt við ákvæði 27. gr.  um ferðaþjónustu að gjald skv. gjaldskrá skuli taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði. Þetta ákvæði kann að hafa áhrif á gjaldskrár á einhverjum þjónustusvæðum, en það atriði mun væntanlega skýrast betur með leiðbeiningum ráðuneytis í þessu efni. (22. des. 2010)

3.  Verður ferðaþjónusta við fatlað fólk samþætt öðrum þáttum? 

Markmið þjónustunnar er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda sbr. 27. gr. laga. Margir notendur ferðaþjónustu geta nýtt sér almenningssamgöngur, að einhverju eða öllu leyti, ef þeir fá aukinn stuðning og þjálfun til þess. Bent hefur verið á leiðir sem farnar hafa verið í nágrannalöndum til þess að ná því markmiði (m.a. leiðsögumannakerfi í Svíþjóð). Auknir möguleikar á samþættingu munu fyrirsjáanlega skapast með tilkomu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. (22. des. 2010)

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks

1.  Hver er afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga til samnings SÞ?

Sambandið styður að samningurinn verði innleiddur hér á landi enda er góður samhljómur milli meginreglna samningsins og markmiða yfirfærslunnar. Íslensk sveitarfélög hafa lengi lagt áherslu á að nærþjónustan sé í senn öflug og samþætt. Sú áhersla er í fullu samræmi við nálgun samningsins um að vinna beri heildstætt og samræmt að því að virkja einstaklingsbundin réttindi fatlaðs fólks. Þá byggir það einnig á hugmyndafræði samningsins að mat á þörf fatlaðs fólks fyrir aðstoð eigi fyrst og fremst að stýra því hvaða úrræði eru veitt. Sú aðferðafræði er tekin upp með mjög ákveðnum hætti í  5. gr. laga. (22. des. 2010)

2.  Hvaða áhrif mun innleiðing samningsins hafa á réttindagæslu fatlaðs fólks?

Í frv. til 1. gr. laga segir að við framkvæmd laganna eigi að taka mið af Samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Réttindagæsla fatlaðra er eitt meginatriði samningsins og ljóst, m.a. af skýrslu Ríkisendurskoðunar frá ágúst 2010, að innleiðing samningsins mun m.a. kalla á endurmat á því fyrirkomulagi hérlendis. Það endurmat snýr að ríkinu og stofnunum þess þar sem réttindagæsla fólks með fötlun verður áfram verkefni ríkisins samkvæmt  29. gr. laga. Í bráðabirgðaákvæði XI er mælt fyrir um að velferðarráðherra skuli, eigi síðar en 1. mars 2011, leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk þar sem meðal annars verða lögð til ákvæði um réttindagæslumenn fyrir fólk með fötlun, persónulega talsmenn þess og aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr nauðung við fólk með fötlun. (22. des. 2010)

Notendastýrð persónuleg aðstoð

1.  Hvernig verður staðið að innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eftir yfirfærsluna?

Samkvæmt  bráðabirgðaákvæði IV verður komið á sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðra um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Markmið verkefnisins er að innleiða leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlaða með markvissum og árangursríkum hætti. Sjö manna verkefnisstjórn mun leiða samstarfsverkefnið. (17. des. 2010)

2.  Hvernig munu einstaka sveitarfélög fá aðild að samstarfsverkefninu?

Reiknað er með að verkefnisstjórn hafi forgöngu um að skilgreina þann hóp notenda sem fær boð um að taka þátt í NPA-samstarfsverkefninu. Þegar ákvörðun hefur verið tekin þar að lútandi munu lögheimilissveitarfélög einstaklinga í hópnum öðlast aðild að verkefninu og hvert um sig gera notandasamning við sinn eða sína íbúa.

3.  Hvaða munur er á þjónustusamningi og notandasamningi?

Þegar sveitarfélag á aðild að þjónustusamningi felst að öllu jöfnu í því að sveitarfélag kaupir tiltekna þjónustu af þjónustuveitanda og greiðir fyrir það samningsbundna fjárhæð. Þá er greiðslan háð því að samningurinn sé efndur og þjónustan veitt.

Notandasamningur er hins vegar samningur sveitarfélags við notanda þjónustu, þar sem sveitarfélagið leggur notandanum til fé til þess að hann geti sjálfur valið þá útfærslu á þjónustu sem hann á tilkall til. Þá er greiðslan óháð efndum en á móti kemur að notandi getur ekki gert frekari kröfu um greiðslu á hendur sveitarfélagi en fram kemur í gjaldskrá.

4.  Hvaða þýðir það að sveitarfélag gefi út gjaldskrá um NPA?

Í  bráðabirgðaákvæði IV er gert ráð fyrir að sveitarfélög sem aðild eiga að NPA-verkefninu verðmeti einstaka þjónustuþætti í gjaldskrá. Er þetta lagt til svo unnt sé að auka gegnsæi og samræmi við verðmat þeirrar þjónustu sem verkefnið nær til. Um að ræða gjaldskrá í þeim skilningi að hún afmarkar það sem gert er ráð fyrir að notandinn þurfi að greiða fyrir þjónustu. Á hinn bóginn leggur sveitarfélagið notandanum til fé á grundvelli notandasamnings þeirra á milli og þarf notandinn því ekki sjálfur að taka þessa greiðslu af framfærslufé sínu. Af þeirri ástæðu er ekki um þjónustugjald að ræða í hefðbundinni merkingu og ekki þarf að birta gjaldskrána með lögformlegum hætti.

5.  Getur sveitarfélagið gefið út þjónustuávísanir til NPA-notanda?

Já, ef um það er samið í notandasamningi.

 

Málefni fatlaðra barna

1.  Verða áfram til staðar sérstakir samningar um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna?

Lengd viðvera barna í 5. – 10. bekk grunnskóla hefur ekki verið talin til lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög velja hins vegar að bjóða upp á þessa þjónustu. Til þess að tryggja að kostnaðarauki standi ekki í vegi fyrir því að fötluð börn njóti þjónustu eins og aðrir hafa verið gerðir sérstakir samningar milli félags- og tryggingamála­ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Meginviðmið samninganna hefur verið að ríki og sveitarfélög beri jafnan hlut í kostnaði við lengda viðveru þessa hóps á hverjum tíma. Þessir samningar falla hins vegar úr gildi um næstu áramót. (23. nóv. 2010)

2.  Hvernig verður þá fyrirkomulagið á lengdu viðverunni eftir yfirfærsluna?

Sú staða er óbreytt að lengd viðvera barna í 5. – 10. bekk grunnskóla telst ekki til lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Velji sveitarfélag að bjóða upp á þjónustuna eiga fötluð börn að njóta hennar eins og aðrir. Fyrirkomulagið mun hins vegar breytast að því leyti að framlag ríkisins til verkefnisins verður inni í fjárhagsramma yfirfærslunnar. Tekin verður afstaða til þess við setningu reglugerða á grundvelli frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga hvort ráðstöfun framlagsins verður hluti af jöfnunarkerfi málaflokksins. (23. nóv. 2010)

3. Taka sveitarfélögin yfir lengda viðveru barna í framhaldsskóla?

Kveðið er á um það í 5. gr. heildarsamkomulagsins að framlög ríkisins til sveitarfélaga vegna lengdrar viðveru grunn- og framhaldsskólanema séu hluti fjárhagsramma samningsins og að sveitarfélög muni sinna þessu verkefni „með sambærilegum hætti og á undanförnum árum“.

Nauðsynlegt er að hafa hér í huga að þrátt fyrir þetta ákvæði samkomulagsins verður legnd viðvera í framhaldsskóla ekki að lögbundnu verkefni sveitarfélaga. Sveitarfélög/þjónustusvæði þar sem framhaldsskólar eru staðsettir taka því ákvörðun um það hvort boðið verður upp á þessa þjónustu eftir 1. janúar 2011. Sveitarfélag eða þjónustusvæði (eitt eða fleiri) sem ákveður að bjóða upp á lengda viðveru mun fá til sín hluta þess framlags, sem eyrnamerkt er verkefninu við yfirfærsluna. Tekin verður afstaða til þess við setningu reglugerða á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga hvort ráðstöfun framlagsins verður hluti af jöfnunarkerfi málaflokksins. (22. des. 2010)

Fjárhagsáætlanagerð

1. Munu sveitarfélögin fá leiðbeiningar frá sambandinu um gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2011?

Starfsmenn sambandsins munu liðsinna  stjórnendum eins og kostur er og auk þess verður upplýsingum miðlað á reglulegum samráðsfundum með tengiliðum af þjónustusvæðunum. (23. nóv. 2010)

2.  Hvað merkir það að byggja þurfi fjárhagsáætlun 2011 á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010?

Í 6. gr. heildarsamkomulagsins segir að ákveða megi sérstakt aðlögunartímabil þar sem framlög jöfnunarkerfis (um það bil 80% af hækkun útsvarshlutfalls) byggi að hluta eða öllu leyti á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010. Fyrir liggur að þessi heimild verður nýtt fyrir árið 2011. Með framreiknuðum rekstrarkostnaði er átt við fjárveitingu á fjárlögum til viðkomandi svæðisskrifstofu á fjárlögum 2010 og að teknu tilliti til viðbótar á fjáraukalögum ef um það er að ræða. Nánari lýsing á rekstrarkostnaði hverrar svæðisskrifstofu kemur fram í skýrslum sem þær hafa útbúið og látið sveitarfélögum í té, sjá t.d. skýrslu vegna svæðisskrifstofunnar á Reykjanesi. (23. nóv. 2010)

3.  Hvernig kemur yfirfærsla fasteigna fram við fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaga?

Í 7. gr. heildarsamkomulagsins segir að fasteignir sem ríkið hefur nýtt í þágu málefna fatlaðra renni til sérstaks fasteignasjóðs í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Markmið fasteigna­sjóðsins er að tryggja innbyrðis jöfnuð milli sveitarfélaga / þjónustusvæða og að fjárfesting í húsnæði nýtist málaflokknum áfram eftir yfirfærsluna. Fasteignasjóðurinn er sjálfstæður lögaðili en reiknað er með að sveitarfélög geti valið um að leigja eða kaupa eignir af sjóðnum. (23. nóv. 2010)

4.  Gerist það sjálfkrafa að sveitarfélögin verði leigjendur að eignum fasteignasjóðs?

Nei, það er alltaf háð því að gerður verði formlegur samningur um leiguna. Vilji sveitarfélag hvorki kaupa né leigja fasteignir af fasteignasjóðnum ákveður það hvaða fyrirkomulag annað verður viðhaft á fasteignamálum á sínu svæði. (23. nóv. 2010)

5.  Verða sveitarfélög að færa leigusamninga við fasteignasjóðinn sem skuldbindingar í ársreikningi?

Reiknað er með að í reglugerð sem innanríkisráðherra mun setja, verði nánar fjallað um efni leigusamninga milli sveitarfélaga og fasteignasjóðs. Ef þessir leigusamningar eru gerðir til langs tíma (>3 ár) er hugsanlegt að færa verði þá sem skuldbindingu í fjárhagsáætlunum og ársreikningi. (23. nóv. 2010)

6.  Hvernig standa sveitarfélögin straum af leigu sem fasteignasjóður innheimtir?

Fjárhagsrammi málaflokksins gerir ráð fyrir að sveitarfélögum verði úthlutað framlögum til greiðslu leigunnar, að teknu tilliti til þess hvaða þörf sveitarfélagsins hefur fyrir jöfnun á fasteignakostnaði. Þessar tekjur koma, ásamt tekjum af framleigu til notanda, á móti leigugreiðslum til fasteignasjóðs. Hlutfall tekna og skulda í bókum sveitarfélagsins ætti því ekki að breytast svo neinu nemur. (23. nóv. 2010)

7.  Hvaða kostnað greiðir leigan?

Fasteignasjóður er stofnaður á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga og yfirtekur eignir, réttindi og skyldur Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem lagður er niður frá sama tíma. Í frv. og heildarsamkomulagi segir einnig að fasteignasjóðurinn fari með réttindi og skyldur er tengjast fasteignunum sjálfum, þ.e. eignarhaldið.

Í þessu felst að fasteignasjóðurinn ber kostnað vegna eignarhalds fasteignanna og taka sveitarfélög ekki þann kostnað á sig nema um það sé sérstaklega samið. Hér er vísað til kostnaðar vegna meiriháttar viðhalds og endurbóta. Leigusamningar myndu hins vegar almennt miða við að sveitarfélög sjái um rekstrarkostnað fasteignar og hefðbundið viðhald.

8.  Hvernig verður staðið að greiðslu stofnkostnaðar vegna nýrra eigna?

Almennt er miðað við að sveitarfélög taki ákvörðun um og kosti framkvæmdir við nýjar eignir sem teknar eru í notkun í málaflokknum eftir yfirfærslu. Sérstaklega er þó mælt fyrir um það í 6. gr. heildarsamkomulagsins að heimilt sé að ákveða í reglugerð að sveitarfélög geti í sérstökum tilfellum fengið framlög vegna stofnkostnaðar fasteigna, enda hafi viðkomandi sveitarfélög sýnt fram á að þau beri óeðlilega háan kostnað vegna þess þáttar í kjölfar yfirfærslunnar.  (23. nóv. 2010)

9.  Hvaða reglur gilda um kaup sveitarfélaga á eignum fasteignasjóðs?

Í 7. gr. heildarsamkomulagsins segir að sveitarfélag, sem kaupandi að fasteign sjóðsins, geti greitt kaupverðið með skuldabréfi með veði í fasteigninni. Kjör og skilmálar skulu vera sambærileg við lán Íbúðalánasjóðs til félagslegra leiguíbúða en þó skulu vextir vera 2%.  (23. nóv. 2010)

10.  Þurfa sveitarfélögin að halda utan um fjármálin hvert fyrir sig eða liggur ábyrgðin á því hjá hverju þjónustusvæði fyrir sig?

Sveitarfélög þurfa í öllum tilvikum að áætla fyrir og ráðstafa þeim fjármunum sem þau fá vegna málaflokksins í gegnum 0,25% (prósentustiga) hækkun útsvarshlutfalls. Standi sveitarfélag eitt að myndun þjónustusvæðis þarf það einnig að áætla fyrir og ráðstafa þeim fjármunum sem renna til svæðisins frá sérdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ef hins vegar byggðasamlag er stofnað um þjónustusvæði, felst í stöðu þess sem lögaðila að það áætlar fyrir og ráðstafar framlögum úr jöfnunarkerfunum. Ef þjónustusvæði er með dreifða ábyrgð (ekki lögaðili) fer um áætlanir og fjármál skv. samningi sveitarfélaganna. (23. nóv. 2010)

Forsendur yfirfærsluferlisins og mat á árangri

1.  Í heildarsamkomulaginu er rætt um forsendur yfirfærslunnar. Hverjar eru þær?

Segja má að þessar forsendur komi skýrast fram í þremur römmum sem efni samkomulagsins afmarkar. (1) Lagarammi , sbr. 3. gr. og viðauka 2. (2) Fjárhagsrammi , sbr. 5. gr. og viðauka 4, 10 og 11 og (3) Faglegur rammi sbr. 10. gr. og viðauka 7, 8 og 9. (23. nóv. 2010)

2.  Hvernig verður staðið að endurmati á forsendum yfirfærslunnar?

Endurmat á forsendum yfirfærslunnar er í raun tvíþætt skv. 11. gr. heildarsamkomulagsins. Annars vegar segir þar að fari fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á  faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar. Hins vegar segir að ef í ljós komi veruleg röskun á forsendum tilfærslunnar skuli teknar upp viðræður ríkis og sveitarfélaga um nauðsynlega leiðréttingu. (23. nóv. 2010)

3.  Á hvaða tímapunktum fer þetta endurmat fram?

Í 11. gr. heildarsamkomulagsins segir að undirbúningur mats á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar skuli hefjast árið 2013 og síðan fara fram á árinu 2014. Leiðrétting vegna röskunar á forsendum tilfærslunnar fer hins fram ef tilefni kemur í ljós. Af hálfu sveitarfélaganna verður lögð áhersla á þessi tilefni verði vöktuð með símati. (23. nóv. 2010)

4.  Hvaða aðili annast endurmatið?

Samkvæmt 12. gr. heildarsamkomulagsins hefur stýrihópur ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks umsjón með framkvæmd yfirfærslunnar. Meðal þess sem hópurinn á gera er að leggja reglubundið mat á framkvæmd og árangur yfirfærslunnar (i-liður) auk endurmatsins 2013 – 2014. Fulltrúum sveitarfélaganna í stýrihópnum verður falið að sjá til þess að stýrihópurinn sinni símats- og vöktunarhlutverki sínu. (23. nóv. 2010)

5.  Hvað felst í orðalaginu „veruleg röskun á forsendum tilfærslunnar“?

Eins og rakið er í svari hér að framan byggja forsendurnar á þremur skilgreindum römmum: lagaramma, fjárhagsramma og faglegum ramma. Ef farið er út fyrir þá ramma getur það falið í sér verulega röskun á forsendum. Sem dæmi má taka að breytt löggjöf í málaflokknum getur þýtt verulega röskun ef þar eru settar inn nýjar lögbundnar skyldur á sveitarfélögin, t.d. um aðgengismál. Veruleg  röskun á fjárhagsramma myndi t.d. liggja fyrir ef kostnaður vegna biðlista fer umfram þær 200 mkr. sem ætlaðar eru til þess á árinu 2012. Veruleg röskun á faglegum ramma gæti komið fram verði fyrirkomulagi mats og greininga breytt á tímabilinu. (23. nóv. 2010)

6. Hvaða tölulegu upplýsingum þurfa sveitarfélögin að halda til haga vegna endurmats á forsendum yfirfærslunnar?

Sveitarfélög og þjónustusvæði verða að halda til haga öllum tölulegum upplýsingum sem varða málaflokkinn. Í viðauka 11 koma fram þeir þættir sem upplýsingaöflun ætti að ná til. Fulltrúar sveitarfélaga í stýrihópnum munu einnig gefa leiðbeiningar um þetta efni. (23. nóv. 2010)

Starfsmannamál

1.  Hvaða upplýsingar þurfa sveitarfélögin að veita starfsmönnum bréflega fyrir áramót?

Um þetta er fjallað í tveimur gátlistum sem kjarasvið hefur útbúið. Annar listinn gildir fyrir ný þjónustusvæði en hinn fyrir þau sveitarfélög sem hafa haft þjónustuna með höndum á undanförnum árum. (23.11.2010)

2.  Hvaða upplýsingar mun Samband íslenskra sveitarfélaga sjá um að veita?

Starfsmenn svæðisskrifstofa málefna fatlaðra fengu í byrjun nóvember sendan heim bækling frá sambandinu um starfsumhverfi starfsmanna sveitarfélaga ásamt bréfi frá framkvæmdastjóra í tilefni af yfirfærslunni. Um miðjan nóvember hófust kynningarfundir um yfirfærsluna fyrir starfsmenn svæðisskrifstofa. Fundir þessir eru á vegum hlutaðeigandi sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytis og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. (29.11.2010/gós)

3.  Hvað er átt við með því að aðilaskiptalög gildi um starf sem færist yfir til sveitarfélags?

Hér er vísað til laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Eins og heiti laganna ber með sér er þeim ætlað að tryggja réttarstöðu starfsmanna við þær aðstæður að rekstur eða starfsemi er yfirtekin af öðrum aðila. Lögin eru m.a. sett til þess að innleiða Evróputilskipun á þessu sviði. (23.11.2010)

4.  Hvað þýðir þetta með aðilaskipti að fyrirtækjum – gilda lögin ekki líka um opinbera aðila?

Lögin gilda um um þá opinberu aðila þar sem starfsemin er yfirtekin með sama hætti og almennt er í atvinnustarfsemi. Afmörkun laganna nær þess vegna til starfsmanna við allar þær starfseiningar í málaflokki fatlaðra sem halda einkennum sínum eftir yfirfærsluna, enda séu skilyrði laganna uppfyllt. Þannig verður þessu háttað um sambýli og aðrar þjónustueiningar undir svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra. (23.11.2010)

5.  En störfin á svæðisskrifstofunum sjálfum?

Svæðisskrifstofurnar sjálfar verða lagðar niður og því teljast þær ekki til starfseininga sem halda einkennum sínum eftir yfirfærsluna.  Aðilaskiptalögin gilda því ekki um störf við stjórnun, umsýslu og ráðgjöf á skrifstofunum. (23.11.2010)

6.  Þurfa sveitarfélögin að tilkynna starfsmönnum á svæðisskrifstofunum um yfirfærsluna?

Það kemur í hlut ríkisins, eftir atvikum hlutaðeigandi svæðisskrifstofu eða félags- og tryggingamálaráðuneytis, að tilkynna starfsmönnum á svæðisskrifstofunum sjálfum um starfslok með tilheyrandi uppsagnar- eða biðlaunarétti, en um þessi atriði gilda ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. (23.11.2010)

7.  Hvaða áhrif hafa aðilaskiptalögin á ráðningarsamninga?

Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 3. gr. aðilaskiptalaganna að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi færist frá fyrri vinnuveitanda til hins nýja. Því þarf ekki að gera nýja ráðningarsamninga við starfsmennina. Hlutaðeigandi svæðisskrifstofa tilkynnir starfsmönnum bréflega um tilfærsluna og þar með starfslok í þjónustu ríkisins þann 31. desember 2010 en jafnframt um rétt til áframhaldandi starfs hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi. (23.11.2010)

8.  Þarf að gera einhverja viðauka við gildandi ráðningarsamninga?

Miðað er við að sveitarfélög leiti til starfsmanna í desemberbyrjun og staðfesti rétt þeirra til áframhaldandi starfs í þeirra þjónustu eftir yfirfærsluna, þ.e. á grundvelli laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Útbúið verður sérstakt viðaukaeyðublað fyrir aðila til að staðfesta áframhaldandi starf (ráðningarsamband) á grundvelli eldri ráðningarsamnings en með nauðsynlegum breytingum þó varðandi kjarasamning sem og upplýsingum um lífeyrissjóð og fleiri atriði.

Svæðisskrifstofurnar munu væntanlega bíða með að tilkynna starfsmönnum um aðilaskiptin þar til Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðra (um yfirfærsluna). Erfitt er fyrir starfsmenn og sveitarfélög að bíða svo lengi með að ganga frá sínum málum. Vegna þessa er mælt með því að sveitarfélög hafi samband við hlutaðeigandi starfsmenn og bjóði þeim áframhaldandi starf í þess þjónustu en með fyrirvara um að yfirfærslan/aðilaskiptin gangi eftir. (29.11.2010/gós)

9.  Hvað með launasetningu skv. kjarasamningi?

Gengið er út frá því að við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga haldist dagvinnulaun samkvæmt eldri kjarasamningi almennt óbreytt reynist þau starfsmanni hagstæðari. Fjárhæð dagvinnulaunanna helst í slíkum tilvikum óskert þar til ákvæði í kjarasamningi hlutaðeigandi stéttarfélags og Sambands íslenskra sveitarfélaga eða eftir atvikum Reykjavíkurborgar leiða til hærri niðurstöðu. (23.11.2010)

10.  Hefur verið samið um að þjónustusvæði eða sveitarfélög stofni einhver ný störf frá og með áramótum fyrir þá sem aðilaskiptalögin gilda ekki um?

Nei, en í 8. gr. heildarsamkomulagsins segir að sveitarfélög muni leitast við að bjóða starfsmönnum skrifstofanna í umsýslu og ráðgjöf störf. Þjónustusvæðin og sveitarfélög innan þeirra hafa verið beðin um að gera grein fyrir því hvort ákvarðanir hafi verið teknar um að setja á laggirnar ný störf vegna yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga þann 1. janúar nk.  Unnið verður úr þeim upplýsingum þegar þær berast. (23.11.2010)

11.  Ef ákveðið er að stofna nýtt starf verður þá að auglýsa það?

Það er misjafnt eftir sveitarfélögum hvaða fyrirkomulag verður haft á þessu, sum hafa þegar ákveðið að fylgja reglum viðkomandi sveitarfélags um auglýsingar á lausum störfum. (23.11.2010)

 

12.  Hvað með réttarstöðu starfsmanna á eldri þjónustusvæðum?

Sveitarfélög á þessum svæðum taka saman lista yfir þessa starfsmenn. Sveitarfélögin þurfa einnig að eiga samráð við félags- og tryggingamálamálaráðuneytið sem tilkynnir starfsmönnunum formlega um breytta réttarstöðu vegna yfirfærslunnar og um áframhaldandi starf hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi sem staðfestir breytinguna fyrir sitt leyti. (23.11.2010)

13. Hvaða áhrif hafa aðilaskiptalögin á gildandi ráðningarsamninga?

Í 3. gr. aðilaskiptalaga er kveðið á um rétt starfsmanna að því er varðar launakjör og starfsskilyrði. Þar segir í 2. mgr. að framsalshafi, þ.e. sveitarfélag sem nýi vinnuveitandinn, skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda, þ.e. ríkið sem fyrri vinnuveitanda, þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. (23.11.2010)

14.  Hvenær gerist það að nýr kjarasamningur kemur til framkvæmda?

Langflestir kjarasamningar sem sveitarfélögin gera, eða fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga að gera í sínu umboði, eru lausir um þessar mundir. Það breytir því hins vegar ekki að eldri samningur gildir þar til nýr er gerður. Af þeirri ástæðu munu starfsmenn sem færast yfir um áramót, strax þá taka laun skv. eldri samningi hafi nýr ekki verið samþykktur. (23.11.2010)

15.  Fjölgar þeim kjarasamningum sem um ræðir við yfirfærsluna?

Samhliða yfirfærslunni verður gerð breyting á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna með síðari breytingum. Samkomulag liggur fyrir um efni breytingarinnar og felst hún í því að þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – Stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast starfsmenn sveitarfélaga 1. janúar 2011 á grundvelli breytinga á lögum, nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, skuli eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við viðkomandi sveitarfélög. (23.11.2010)

16.  Hvaða ákvæði gilda um lífeyrissjóðsaðild þeirra sem færast yfir skv. aðilaskiptalögum?

Sérstök lagaákvæði verða sett til þess að tryggja að starfsmenn í B-deild LSR eigi rétt til að vera þar áfram með óslitna réttindaávinnslu. (23.11.2010)

 

17.  Gildir það sama um A-deild LSR?

Ekki verður sett sérstakt lagaákvæði til þess að mæla fyrir um rétt til áframhaldandi veru í A-deild. Það leiðir hins vegar af almennum reglum að við yfirfærsluna gefst starfsmönnum sem þess óska kostur á að halda áfram aðild að A-deild LSR með samþykki hlutaðeigandi sveitarfélags. (23.11.2010)

18. Þarf að gera einhverja viðauka við gildandi ráðningasamninga?

Miðað er við að sveitarfélög leiti til starfsmanna í desemberbyrjun og staðfesti rétt þeirra til áframhaldandi starfs í þeirra þjónustu eftir yfirfærsluna, þ.e. á grundvelli laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Útbúið hefur verið sérstakt viðaukaeyðublað fyrir aðila til að staðfesta áframhaldandi starf (ráðningarsamband) á grundvelli eldri ráðningarsamnings en með nauðsynlegum breytingum þó varðandi kjarasamning sem og upplýsingum um lífeyrissjóð og fleiri atriði.

Svæðisskrifstofurnar munu væntanlega bíða með að tilkynna starfsmönnum um aðilaskiptin þar til Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðra (um yfirfærsluna). Erfitt er fyrir starfsmenn og sveitarfélög að bíða svo lengi með að ganga frá sínum málum. Vegna þessa er mælt með því að sveitarfélög hafi samband við hlutaðeigandi starfsmenn og bjóði þeim áframhaldandi starf í þess þjónustu en með fyrirvara um að yfirfærslan/aðilaskiptin gangi eftir. (22. des. 2010)

Bókhaldslyklar

1.   Á hvaða bókhaldslykla eiga sveitarfélög að færa útgjöld eftir yfirfærslu?

Reikningsskila- og upplýsinganefnd, sem ráðuneyti sveitarstjórnarmála skipar, hefur fjallað um bókhaldslykla fyrir þjónustu við fatlaða. Nefndin telur æskilegast að nota eftirfarandi deildalykla
02-5          Þjónusta við fatlaða
02-51        Sameiginlegir liðir
02-52        Liðveisla
02-53        Félagsleg heimaþjónusta
02-54        Ferðaþjónusta fatlaðra
02-56        Búseta
02-57        Skammtímavistun fyrir fatlaða
02-58        Dagþjónusta fyrir fatlaða
02-59        Önnur þjónusta við fatlaða [t.d. framlög til byggðasamlaga] (29.11.2010)

2.  Er þessi flokkun bindandi fyrir sveitarfélög?

Flokkunin er í sjálfu sér ekki bindandi, en eindregið er mælt með því að öll sveitarfélög taki hana upp strax frá upphafi árs 2011. Það er forsenda þess að endurmat geti farið á fjárhagsramma yfirfærslunnar að safnað hafi verið samræmdum upplýsingum um fjármál sveitarfélaganna að þessu leyti. Óvissa og ósamkvæmni í upplýsingum getur því bitnað á hagsmunum sveitarfélaganna. (29.11.2010)

  3.  Er hægt að búa til fleiri flokka?

Í tilmælum sínum bendir reikningsskila- og upplýsinganefnd á að frekari notkun og/eða sundurliðun sé frjáls innan ramma 02-5x-xxx. (29.11.2010)

 

Fjármál og umsýsla eigna

1. Hvað verður um þá lausamuni sem tilheyra svæðisskrifstofunum í dag?

Almenna viðmiðið í þessu efni á að vera það, að allt það sem tilheyrir aðstöðu fyrir einstök störf flytjist með þeim starfsmanni yfir til hlutaðeigandi sveitarfélags / þjónustusvæðis. Hvað varðar starfsmenn sem eru í þjónustu við notendur þá á þetta við um þann búnað sem starfsmanninum er nauðsynlegt að hafa til þess að gera sinnt þjónustunni. Hvað varðar skrifstofustörf eða skrifstofuþátt starfa sem flytjast yfir til sveitarfélags, þá á þetta við um skrifstofubúnað, útstöðvar, símtæki og annað sem yfirleitt tilheyrir skrifstofuaðstöðu. (10.12.2010)

2. Hvernig fer með skrifstofuhlutann ef fleiri en eitt þjónustusvæði taka við af svæðisskrifstofu?

Verið er að vinna að því, í samráði við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, að greina kostnað vegna skrifstofuhlutans á svæðisskrifstofunum. Á grundvelli þessarar greiningar verður unnið að skiptingu á því sem viðkemur skrifstofuhlutanum, bæði lausamunum og hlutdeild í fjárveitingum. (10.12.2010).