05. mar. 2013

Frumvarp til laga um sveitarstjórnarkosningar (persónukjör)

Sambandið hefur sent umsögn um frumvarp til laga um sveitarstjórnarkosningar (persónukjör), 537. mál, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að persónukjör við sveitarstjórnarkosningar verði aukið frá því sem nú er við hefðbundnar listakosningar og horft til þess kerfi sem Norðmenn nota við sveitarstjórnar- og fylkiskosningar, en það aðlagað að íslenskum aðstæðum.

Helstu atriði sem breytast við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga ef frumvarpið verður að lögum eru þessi:

  1. Kjósendur fá heimild til að veita einum eða fleirum frambjóðendum á þeim lista sem þeir kjósa persónuatkvæði.
  2. Kjósendur fá heimild til þess að veita mjög takmörkuðum fjölda frambjóðenda á öðrum listum en þeir kjósa persónuatkvæði.
  3. Flokkar í framboði fá heimild til að verja efstu frambjóðendur með atkvæðaálagi.
  4. Möguleikar til útstrikunar falla niður.
  5. Nýti kjósandi heimild til að veita persónuatkvæði þvert á lista skerðist atkvæði þess lista sem hann kýs.
  6. Endanleg fulltrúatala hvers lista er fundin eftir að öll atkvæði hafa verið talin og atkvæðishlutar hafa verið fluttir milli lista.
  7. Persónuatkvæði, að viðbættu atkvæðaálagi, ræður endanlegri röðun á lista.
  8. Framboðsfrestur er lengdur úr þremur vikum í sjö.

Drög að því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi voru kynnt stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga á stjórnarfundi 14. desember sl. Á þeim fundi urðu miklar umræður um málið en afstaða stjórnarmanna til þess var afar mismunandi og ekki endilega eftir flokkslínum.

Við umræðu um málið í stjórn sambandsins 1. mars 2013 kom ekki fram bein andstaða gegn frumvarpinu frá neinum stjórnarmanni þótt nokkrir stjórnarmenn lýstu nokkrum efasemdum í garð málsins, ýmist í heild eða gagnvart einstökum þáttum í þeirri útfærslu persónukjörs sem fram kemur í frumvarpinu. Þær efasemdir beindust helst að því að lagt er til að flokkarnir geti ákveðið atkvæðaálag en einnig kom fram að ekki eru allir á því að heimila kjósendum að veita frambjóðendum á fleiri en einum lista persónuatkvæði.

Á heildina litið var afstaða stjórnarmanna til málsins fremur jákvæð. Stjórnin ræddi m.a. sérstaklega hvort ástæða væri til að leggja til þá breytingu á frumvarpinu að persónukjör þvert á lista yrði ekki leyft, a.m.k. að svo stöddu. Niðurstaða þeirrar umræðu var að stjórnin mælir alls ekki með slíkri breytingu á frumvarpinu. Einnig taldi stjórnin ekki koma til álita að hafa persónukjör valkvætt sem kosningaraðferð við sveitarstjórnarkosningar, eins og stundum hefur komið til tals, heldur verði sömu reglur að gilda í öllum sveitarfélögum.

Þá er það afstaða stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að ríkið eigi að bæta sveitarfélögunum þann kostnaðarauka sem þau verða fyrir ef frumvarpið verður að lögum, enda er frumkvæði í málinu komið frá ríkisstjórn Íslands. Fyrirsjáanlegt er meðal annars að verði frumvarpið að lögum þarf að leggja í umtalsverðan kostnað til að kynna kjósendum og framboðum hið breytta fyrirkomulag sem leiðir af frumvarpinu.

Loks skal tekið fram að við umræðu um persónukjör á vettvangi sambandsins hefur iðulega komið fram það sjónarmið af hálfu sveitarstjórnarmanna að réttast væri að byrja á að gera tilraunir með það fyrirkomulag í Alþingiskosningum, frekar en að gera sveitarfélögin að vettvangi slíkra tilrauna. Þykir rétt að halda þessu sjónarmiði til haga í umræðu um það frumvarp sem hér er til umsagnar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða leggst stjórn sambandsins ekki gegn því að frumvarpið verði að lögum.