31. des. 2012

Skilvirkni og traust


Um jól og áramót reikar hugurinn til baka yfir farinn veg á árinu sem er að líða samfara hugleiðingum um það sem taka mun við á nýju ári. Hjá sambandinu er það verklag viðhaft að framkvæmdastjóri og sviðsstjórar leggja í lok ársins mat á hvernig til hefur tekist í þeim fjölda verkefna sem skilgreind eru í starfsáætlun viðkomandi árs. Þau verkefni hafa undanfarin ár að meginþunga verið byggð á ítarlegri stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2011 til 2014 sem mótuð var á tveimur landsþingum sveitarstjórnarmanna. Þetta mat er síðan mikilvægt hjálpartæki við gerð starfsáætlunar fyrir næsta ár.

Þessi gögn eru lögð fyrir stjórn sambandsins í desember ár hvert. Á stjórnarfundi þann 14. desember sl. fór fram slík umfjöllun. Með henni er m.a. tryggt að starfsmenn sambandsins vinni á grundvelli gildandi stefnumörkunar og samkvæmt vilja stjórnarinnar. Þetta verklag, auk skýrrar stefnumörkunar,  leggur grunninn að þeirri skilvirkni sem er nauðsynleg í starfsemi sambandsins. Svigrúm til viðbragðsflýti er svo nauðsynlegt við að halda fram skýrri afstöðu sambandsins  gagnvart málum sem koma oft upp með litlum fyrirvara, s.s. vegna vinnslu lagafrumvarpa sem varða sveitarfélögin miklu eða aðgerða af hálfu ráðuneyta sem hafa sams konar áhrif.

Þetta verklag eykur einnig svigrúm og frelsi starfsmanna sambandsins til að nýta frumkvæði sitt og skapandi hugsun til að ná markmiðum eftir þeim leiðum sem þeir kjósa að fara með lausnarmiðaða hugsun að leiðarljósi. Það traust sem í þessu felst er hvati til aukinnar starfsánægju sem rannsóknir sýna að sé einn mikilvægasti þáttur og meginuppspretta framleiðni í starfsemi skipulagsheilda. Það er einmitt eðlileg og sanngjörn krafa sveitarstjórnarmanna til starfsmanna sambandsins að starfsemin skili mikilli framleiðni til hagsbóta fyrir sveitarfélögin. Í janúar nk. mun starfsáætlun sambandsins fyrir árið 2013 liggja fyrir og verða öllum aðgengileg. Ég hvet stjórnendur og starfsfólk sveitarfélaga til að kynna sér hana þegar þar að kemur.

Fleiri og fleiri leita eftir þjónustu sambandsins

Starfsmenn sambandsins kunna að meta það traust sem þeim er sýnt og eru þakklátir stjórninni og sveitarstjórnarmönnum fyrir það. Þeir munu áfram leggja sig alla fram um að standa undir því trausti. Það er ljóst að verkefnin eru næg og þeim fjölgar á hverju ári. Fleiri og fleiri aðilar leita eftir þjónustu frá sambandinu. Ekki er einungis um að ræða sveitarfélög, stofnanir þeirra og einstaka sveitarstjórnarmenn, heldur einnig stofnanir ríkisins, ráðuneyti og Alþingi auk hinna ýmsu hagsmunasamtaka. Þessir aðilar virðast ánægðir með þjónustuna sem sambandið veitir og það verklag sem hjá því er viðhaft. Annað verður ekki ráðið af sífellt aukinni eftirspurn eftir þjónustunni. Þessi þróun gefur tilefni til að gleðjast jafnframt því sem starfsmönnum ber að sýna þakklæti og auðmýkt.

Starfsfólk sambandsins óskar öllum sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga, sem og öðrum sem það hefur samskipti við, gleðilegrar hátíðar og þakkar fyrir ánægjuleg samskipti. Við munum áfram kappkosta að standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til sambandsins. Vonandi mun sveitarstjórnarstigið halda áfram að eflast á nýju ári í góðri samvinnu sveitarstjórnarmanna og sambandsins, landsmönnum öllum til heilla.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri.