Samskipti ríkis og sveitarfélaga

Í X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er fjallað um samskipti ríkis og sveitarfélaga - annars vegar í 100. gr. þar sem kveðið er á um samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og hins vegar í 101. gr. þar sem kveðið er á um samráð vegna breytingar á verkaskiptingu eða fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga:

100. gr. Samstarfssáttmáli.

Ríkisstjórninni er rétt að koma á formlegu samstarfi við samtök sveitarfélaga með gerð samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og með öðrum hætti. Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.

101. gr. Breyting á verkaskiptingu eða fjármálalegum samskiptum.

Komi fram tillögur um meiri háttar breytingar á verkaskiptingu eða fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, skulu þær teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd skipaðri fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en þær eru formlega afgreiddar.

Fyrsti samstarfssamningur ríkis og sveitarfélaga var gerður árið 1984 og var við gerð hans höfð hliðsjón af sams konar samningi sem gilti í Finnlandi. Síðan voru gerðir nýir samningar að jafnaði til tveggja ára í senn.

Núgildandi samstarfssáttmáli er frá 2. apríl 2008 og er hann ótímabundinn en með ákvæði um endurskoðun ef annar hvor aðili telur ástæðu til.

Markmiðið með samstarfssáttmálanum er að efla formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga. Með gerð samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga er stefnt að því að:

  • efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörfum hvors aðila fyrir sig í samfélagslegu og efnahagslegu tilliti,
  • koma á reglubundnum samskiptum aðilanna,
  • stuðla að sameiginlegri sýn á þróun, stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins,
  • samræma, eftir því sem kostur er, stefnu ríkis og sveitarfélaga í opinberum fjármálum og rekstri, með það fyrir augum að unnt verði að ná þeim efnahagsmarkmiðum sem ríkisstjórnin og Alþingi ákvarða á hverjum tíma,
  • stuðla að aðhaldi og ábyrgð í opinberum rekstri,
  • stuðla að upplýstri umræðu um sveitarstjórnarmál.

Samstarfsnefnd um samskipti ríkis og sveitarfélaga

Starfandi er samstarfsnefnd um samskipti ríkis og sveitarfélaga á grunni samstarfssáttmála þessara aðila, svokölluð Jónsmessunefnd.

Nefndina skipa:

  • Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis
  • Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu
  • Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Dagur B. Eggertsson, stjórnarmaður í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Tilgangur nefndarinnar er að auka traust og formfestu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, bæta stjórnsýslu hins opinbera og efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörfum hvors aðila fyrir sig. Nefndin skal fara yfir einstök mál sem vísað er til hennar og jafnframt skal nefndin taka sérstaklega upp á fundum sínum umræðu um með hvaða hætt er unnt að bæta verkferla og samskipti þessara stjórnsýslustiga.

Að hálfu sambandsins starfar Karl Björnsson framkvæmdastjóri með nefndinni.

 

Senda grein

SambandiðÚtlit síðu: