3.3 Velferðin í öndvegi

Fræðslu- og uppeldismál

3.3.1 Sambandið skal hafa velferð barna að leiðarljósi í aðkomu sinni að skólamálum sveitarfélaga og það mikilvæga hlutverk alls skólastarfs að stuðla að alhliða þroska þeirra og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Markmið skólastarfs verði að börn öðlist almenna menntun við hæfi hvers og eins, sem nýtist þeim í frekara námi, lífi og starfi.
3.3.2 Sambandið skal styðja sveitarfélög í að marka sér sjálf áherslur og stefnu um skólamál innan ramma laga og reglugerða.
3.3.3 Sambandið skal stuðla að því að skólastarf taki mið af þeim megináherslum sem koma fram í aðalnámskrám, en jafnframt að hvert sveitarfélag hafi svigrúm til fjölbreytni og sveigjanleika varðandi kennsluhætti, námsgögn og útfærslu skólastarfs. Tryggja þar að fjármagn fylgi innleiðingu aðalnámskráa og öðrum umbótaáætlunum ríkisins í skólamálum. Samhliða þarf að tryggja útgáfu viðeigandi námsgagna sem hvetja til fjölbreyttra kennsluhátta.
3.3.4 Sambandið skal stuðla að því að greint verði hvaða úrbóta er þörf til þess að íslenskt skólakerfi geti orðið í fremstu röð. Aukna áherslu þarf að leggja á gæði og árangur skólastarfs, þ.m.t. námsárangur sem stenst alþjóðlegan samanburð. Halda þarf í styrkleika skólakerfisins jafnhliða því að bæta úr veikleikum þess.
3.3.5 Sambandið skal vinna að skilvirku samstarfi ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga vegna barna sem búa við fötlun, sjúkdóma og aðrar sérstakar aðstæður. Mikilvægt er að greina og leysa úr kerfislægum vanda í þessu skyni og skerpa á ábyrgð og skyldum ríkis og sveitarfélaga. Tryggja þarf að hagræðing í opinberum rekstri búi ekki til grá svæði í þjónustu við börn. Sambandið hvetur til aukinnar svæðasamvinnu sveitarfélaga um sérfræðiþjónustu, ráðgjöf og úrræði til hagsbóta fyrir börn.
3.3.6 Sambandið skal skoða faglegar og fjárhagslegar forsendur þess að menntun barna til 18 ára aldurs verði á hendi sveitarfélaga svo tryggja megi samfellu í námi og félagslegan stöðuleika. Með því móti verður lagður grunnur að sveigjanleika og skilvirkni í námsframvindu og námslokum sem leitt getur til minna brotthvarfs og hefur forvarnargildi. Gerð verði tilraun með rekstur framhaldsskóla á vegum sveitarfélaga.
3.3.7 Sambandið skal skoða forsendur þess að leikskólinn, sem fyrsta skólastigið, verði lögbundið verkefni sveitarfélaga.
3.3.8 Sambandið skal vinna að því að regluverk um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla verði einfaldað og lagaleg staða þeirra verði skýr.
3.3.9 Sambandið skal vinna að því að komið verði á skýrum lagaramma um tónlistarskóla þar sem kveðið verði á um fjárhagslega og faglega ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á rekstri þeirra.
3.3.10 Sambandið skal efla samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sambandsins um mat og eftirlit með skólastarfi. Ytra mat á grunn- og leikskólum verði innleitt í áföngum og til framtíðar litið verði stefnt að því að allir skólar fari í gegnum ytra mat á 5-7 ára fresti. Mikilvægt er að skólanefndir fylgi eftir niðurstöðum ytra mats með markvissum hætti.
3.3.11 Sambandið skal vinna að því að miða skólastarf í auknum mæli við styrkleika, áhugasvið og færni barna, s.s. með því að auka valfrelsi, ábyrgð og sjálfræði þeirra varðandi áherslur og skipulag eigin náms.
3.3.12 Sambandið skal vinna að því efla lestrarfærni og lesskilning barna. Stuðlað verði að nánu samstarfi leikskóla og grunnskóla um eflingu læsis í víðum skilningi.
3.3.13 Sambandið skal vinna að því að auka vægi verk-, tækni- og listgreina í námi barna.
3.3.14 Sambandið skal vinna að því að starfsþróun kennara, stjórnenda og annarra starfsmanna skóla verði forgangsverkefni. Huga þarf sérstaklega að því að efla fagmenntun starfsfólks leikskóla með fjölbreyttum námsleiðum og áfangaskiptingu leikskólakennaranáms. Unnið verði að því að miðla upplýsingum til sveitarfélaga og starfsfólks skóla um mismunandi leiðir til starfsþróunar. Áfram verði unnið að því að kjarasamningar styðji við framþróun, sveigjanleika og nýbreytni í skólastarfi.
3.3.15 Sambandið skal beita sér fyrir því að lagt verði mat á inntak kennaranáms með tilliti til menntastefnu og skólastarfs á hverjum tíma. Mikilvægt er að lenging kennaranáms verði nemendum og skólastarfi til hagsbóta, s.s. með aukinni áherslu á vettvangsnám og hagnýtingu í starfi.

Félagsþjónusta

3.3.16 Sambandið skal vinna að því að félagslegur stuðningur sé skilgreindur út frá þörfum þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa á aðstoð að halda, óháð aldri, heilbrigði eða fötlun þeirra. Stefnt verði að því að lög um félagsþjónustu nái til allra og sérlög um einstaka hópa verði felld úr gildi.
3.3.17 Sambandið skal vinna að því að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði skilgreind sem neyðaraðstoð og öryggisnet fyrir þá sem eru að fara á milli annarra framfærslukerfa eða eiga af einhverjum ástæðum ekki rétt á annarri framfærslu. Áhersla verði lögð á að virkja þá, sem þurfa á neyðaraðstoð að halda, til sjálfshjálpar með fjölbreyttum virkniúrræðum sem henta þörfum sem flestra.
3.3.18 Sambandið skal beita sér fyrir því að opinber stefnumörkun og löggjöf stuðli að því að bóta- og greiðslukerfi ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða vinni eins vel saman og kostur er. Lögð verði áhersla á að bæta eftirlit með greiðslum og samvinnu milli stofnana. Liður í því er að lögfest verði skylda umsækjenda um opinberar bótagreiðslur til þess að upplýsa um það ef breyting verður á högum þeirra sem hefur áhrif á rétt til fjárhagsstuðnings.
3.3.19 Sambandið skal beita sér fyrir því að framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks verði fylgt eftir, þ.m.t. um uppbyggingu búsetuþjónustu og framtíðaráherslur hennar mótaðar með hliðsjón af niðurstöðum fyrirliggjandi rannsókna. Fjármögnun búsetuuppbyggingar og tengdrar þjónustu njóti forgangs ásamt umbótum í félagslífi fatlaðra barna og ungmenna auk þess sem aðgengismál í víðum skilningi fái aukið vægi. Sett verði raunhæf markmið um þjónustustig og framþróun í þjónustu við fatlað fólk í nánu samráði við samtök notenda og stjórnvöld ríkisins. Sérstök fjárframlög frá ríkinu standi undir stærstum hluta þessarar uppbyggingar.
3.3.20 Sambandið skal beita sér fyrir því að sátt náist um fyrirkomulag þjónustu við fatlað fólk, m.a. um nám og atvinnu. Liður í þeirri vinnu er að þróa verkferla og ákveða þjónustustig í málaflokknum ásamt því að efla innra og ytra mat  á  gæðum þjónustunnar. Unnið verði að því, í samstarfi við ríkið, að eyða gráum svæðum í málaflokknum. Í tengslum við endurmat á yfirfærslunni verði fjármögnun þjónustunnar tryggð og tillit tekið til þeirra laga og hugmyndafræðilegu breytinga sem átt hafa sér stað.   Fjármögnun verði dreift markvisst, m.v. þarfir hvers þjónustusvæðis.
3.3.21 Sambandið skal vinna að því að þróaðir verði notendasamningar og notendastýrð persónuleg aðstoð í nærþjónustu sveitarfélaga sem verði innleidd sem valkostur við önnur þjónustuform, enda liggi fyrir sérstök fjármögnun af hálfu ríkisins vegna þessarar þróunar.
3.3.22 Sambandið skal vinna að því að áfram verði undirbúnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði þjónustu við aldraða og skilgreindir verði þeir þjónustuþættir sem æskilegt er að flytja svo hægt sé að tryggja samþætta og góða þjónustu. Byggja  skal á þeirri reynslu sem hefur skapast í tengslum við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk, mótuð verði skýr stefna í málaflokknum og útbúin framkvæmdaáætlun áður en gerðar eru breytingar á verkaskiptingu. Sérstaklega verði hugað að úrlausn varðandi lífeyrisskuldbindingar. Heimahjúkrun og fleiri þjónustuþættir á forræði heilsugæslunnar komi þar til sérstakrar skoðunar sem fyrst.
3.3.23 Sambandið skal vinna að því að allir þeir sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum njóti lögboðinnar starfsendurhæfingar og vinnumarkaðsúrræða á forræði Vinnumálastofnunar. Lögð verði áhersla á að ríki og sveitarfélög vinni sameiginlega að því að sporna gegn langtímaatvinnuleysi, með sérstakri áherslu á að ungu, atvinnulausu fólki verði tryggð viðeigandi virkniúrræði. Til að fjármagna tímabundin aukin útgjöld sveitarfélaga vegna þessara verkefna verði þeim tryggð sanngjörn hlutdeild í almennu tryggingagjaldi.
3.3.24 Sambandið skal vinna að því að sveitarfélögin tengist enn frekar en nú er verkefnum Vinnumálastofnunar á sviði vinnumiðlunar og úrræða fyrir alla þá sem þurfa aðstoð á vinnumarkaði. Tekjustofn verði tryggður til að standa undir kostnaði sveitarfélaga við þetta samstarfsverkefni með markvissari hætti en nú er og að sveitarfélögunum verði með lögum eða þjónustusamningum falið stærra hlutverk við vinnumiðlun og úrræði fyrir atvinnuleitendur og aðra þá sem standa höllum fæti á almennum vinnumarkaði.
3.3.25 Sambandið skal vinna markvisst að því að fækka gráum svæðum þar sem ábyrgðarskil  ríkis og sveitarfélaga eru ekki nægjanlega ljós á sviði skóla- og velferðarmála. Með því má tryggja skilvirkari þjónustu við alla sem þurfa á velferðarþjónustu að halda.
3.3.26 Sambandið skal stuðla að þróun tækni og nýsköpunar í allri velferðarþjónustu sveitarfélaga.

Jafnréttis- og mannréttindamál

3.3.27 Sambandið skal leggja sitt af mörkum og hvetja sveitarfélögin til að sporna gegn neikvæðum áhrifum staðalmynda á sjálfsmynd og tækifæri barna og fullorðinna. Jafnframt að sporna gegn klámvæðingu og vændi og alvarlegum samfélagslegum áhrifum þess. 
3.3.28 Sambandið skal hvetja og styðja sveitarfélögin í því að ná fram jafnrétti kynjanna í reynd, ekki síst í aðgerðum gegn kynbundnum launamun. Unnið skal í gegnum Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum og með auknu samstarfi við Jafnréttisstofu og norræn systursambönd.
3.3.29 Sambandið skal leggja sitt af mörkum, sérstaklega í gegnum þátttöku í innflytjendaráði, til að stuðla að því að hagsmunir íbúa af erlendum uppruna, bæði barna og fullorðinna, séu tryggðir. Mikilvægt er að þjónusta sé þeim aðgengileg, þannig að þeir öðlist sem fyrst sömu stöðu og aðrir íbúar og séu viðurkenndir og virkir þátttakendur í samfélaginu.
3.3.30 Sambandið skal vinna að því að sveitarfélög fái lögbundinn stuðning Fjölmenningarseturs til að veita íbúum af erlendum uppruna fullnægjandi þjónustu og aðstoða sveitarfélög við að vinna saman að málefnum þeirra.

Húsnæðismál

3.3.31 Sambandið skal vinna að því að húsnæðisbætur verði verkefni ríkisins og fjármagnaðar af ríkissjóði. Í áföngum verði unnið að sameiningu húsaleigubóta og vaxtabóta í einar húsnæðisbætur. Húsnæðisbætur miðist við þarfir einstaklinga og fjölskyldna óháð búsetuformi eða tegund húsnæðis. Þess verði jafnframt gætt að um samtímastuðning verði að ræða. Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna félagslegra aðstæðna (annarra en lágra tekna) verði áfram á hendi sveitarfélaga. 
3.3.32 Sambandið skal vinna að því að kostnaðarþátttaka ríkisins vegna almennra og sérstakra húsaleigubóta í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði fest við 60% hlutdeild óháð þróun heildarútgjalda vegna bótanna, þar til nýtt kerfi húsnæðisbóta verði tekið upp.
3.3.33 Sambandið skal vinna að því að stuðla að fjölbreyttum og sveigjanlegum húsnæðismarkaði sem tryggir öllum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Sérstaklega verði hugað að því hvernig tryggja megi framboð af ódýru og öruggu húsnæði til leigu eða kaups fyrir núverandi og næstu kynslóðir ungs fólks.
3.3.34 Sambandið skal vinna að uppbyggingu öflugs og almenns leigumarkaðar, þannig að leigjendur íbúðarhúsnæðis hafi möguleika á langtímaleigu til að tryggja búsetuöryggi þeirra.  Skilgreint verði hvernig styðja megi kröftuglega við þróun leigumarkaðar með aðkomu sveitarfélaga, ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila. Stofnframlög verði sérstaklega skoðuð í því sambandi. Gætt skal að því að tryggja félagslegan fjölbreytileika í einstökum hverfum sveitarfélaga.
3.3.35 Sambandið skal stuðla að því að Varasjóður húsnæðismála verði áfram bakhjarl sveitarfélaga á svæðum þar sem brestur er á húsnæðismarkaði. Teknar verði upp viðræður við ríkisvaldið um hlutverk og fjármögnun sjóðsins í tengslum við áætlanir um framtíðarskipan húsnæðismála.
3.3.36 Sambandið skal leggja áherslu á að við fyrirhugaðar breytingar á aðkomu ríkisins að húsnæðislánamarkaði verði lögð áhersla á að tryggja áfram jafnan rétt allra landsmanna, hvar sem þeir búa, til húsnæðislána á viðráðanlegum kjörum.
3.3.37 Sambandið skal vinna að því, í samstarfi við ríkið, að ná fram lækkun byggingarkostnaðar án þess að skerða aðgengi.  Það verði gert með því að stuðla að lækkun lands/lóðaverðs.  Þá verði gefinn sveigjanleiki við útfærslu á byggingareglugerð sem leiðir til lækkunar á kostnaði.

Menningarmál

3.3.38 Sambandið skal gæta eins og kostur er sameiginlegra hagsmuna sveitarfélaga við veitingu þjónustu og þróun hennar á sviði menningarmála.

Æskulýðs- og íþróttamál

 3.3.39 Sambandið skal stuðla að mótun stefnu um sameiginlegar áherslur sveitarfélaganna á sviði æskulýðs-, íþrótta- og menningarmála, þar með talið samstarf um byggingu og rekstur sérhæfðra mannvirkja.
 3.3.40 Sambandið skal gera þá kröfu til sérsambanda að þau kostnaðarmeti tillögur sem leiði til fjárútláta af hálfu sveitarfélaga.
 3.3.41 Sambandið skal beita sér fyrir því að sveitarfélög fái stuðning til aðgerða vegna lögfestingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
 3.3.42 Sambandið skal hvetja sveitarfélög til þess að vinna eftir uppleggi ráðuneyta og embættis landlæknis í þágu lýðheilsu gegnum heilsueflingu og forvarnarstarf.