Fjárhagsaðstoð í brennidepli

- vorfundur Samtaka félagsmálastjóra haldinn í Vesturbyggð

Samtök félagsmálastjóra á Íslandi héldu vorfund sinn dagana 22. og 23. maí sl. Að þessu sinni varð Vesturbyggð fyrir valinu og var fundað á Patreksfirði.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga var í brennidepli á fundinum. Gunnar Sandholt félagsmálastjóri í Skagafirði og Hjördís Hjartardóttir félagsmálastjóri Borgarbyggðar fjölluðu um siðferðilegar spurningar og þær faglegu skyldur sem hvíla á félagsþjónustunni. Þau lögðu áherslu á virðingu fyrir skjólstæðingum og jákvæða hvatningu. Töldu þau að hugmyndir um skerðingu á grunnfjárhagsaðstoð væru afturhvarf til löngu liðins tíma.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Hafnarfjarðarbæjar, kynnti nýtt verkefni í Hafnarfirði sem hlotið hefur heitið Áfram! Verkefninu er ætlað að virkja þá einstaklinga sem sækja um fjárhagsaðstoð og eiga ekki við annan vanda að etja en atvinnuleysi. Rannveig rakti helstu þætti verkefnisins en í því eru ýmis nýmæli, meðal annars um víðtæka teymisvinnu um málefni viðtakenda aðstoðar undir yfirskriftinni Virðing – Vinna – Virkni. Verkefnið byggist á ítarlegri greiningu á þeim hópi sem um ræðir og er mikið lagt upp úr að fylgjast náið með þeim viðbrögðum sem verkefnið fær. Árangur verður metinn og ef verkefnið þykir gefa góða raun er miðað við að verklagið verði fest í sessi.

Hjálp til sjálfshjálpar

Gyða Hjartardóttir, félagsþjónustufulltrúi sambandsins, flutti erindi á fundinum þar sem hún kynnti m.a. nýja skýrslu sambandsins um fjárhagsaðstoð og skilyrðingar þeim tengdar, þ.e. að viðtakandi sé virkur í atvinnuleit og taki þátt í þeim úrræðum sem í boði eru. Markmið slíkra úrræða er að styðja viðtakendur í átt til sjálfshjálpar og koma í veg fyrir að þeir festist til langframa á fjárhagsaðstoð. Gyða rakti niðurstöður nýlegra rannsókna um inntak og framkvæmd slíkra skilyrða en tók einnig fram að þau ættu einungis við þá sem teljast vera vinnufærir og fá fjárhagsaðstoð annars staðar á Norðurlöndum, Þýskalandi og Bretlandi, en þau lönd voru til skoðunar í skýrslunni.


Líflegar umræður um skilyrðingar

Einnig fluttu þær Stella K. Víðisdóttir, sviðsstjóri á velferðarsviði Reykjavíkur, og Ellý A. Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri erindi þar sem þær greindu frá þeim aðgerðum sem Reykjavík hefur gripið til vegna fjölgunar viðtakenda fjárhagsaðstoðar. Velferðarsvið framkvæmir rannsóknir og reglulegar úttektir til þess að meta árangur aðgerða. Rannsóknir sýna að þessi hópur er á margan hátt illa staddur og mikilvægt að haga nálgun og hvatningu til virkni/vinnu í samræmi við það.

Ný úrræði hafa verið þróuð og eru virkniráðgjafar á hverri þjónustumiðstöð. Sérstakt kynningarnámskeið er fyrir atvinnuleitendur án bótaréttar, auk þess sem EMS-viðtalsformið hefur verið þróað (eigið mat á starfsgetu). Öðrum sveitarfélögum stendur til boða að fá þetta form til afnota frá borginni.

Framsögurnar vöktu líflegar umræður. Sérstaklega var rætt hver væri munurinn á ýmsum skilyrðum sem fram koma í reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð, þ.e. þeim skilyrðum sem almennt er beitt í sveitarfélögum annars vegar, og þeim skilyrðum sem beitt er í verkefni Hafnarfjarðarbæjar og skilyrðum í aðgerðaráætlun borgarinnar hins vegar. Kom fram að um heimildargreiðslur gildi önnur sjónarmið en þegar ákvarðanir eru teknar um að skerða grunnaðstoð. Á móti var bent á að slíkar skerðingar tíðkist í nágrannalöndum og séu þar taldar skila árangri þannig að vinnufærir einstaklingar eru hvattir til þess að leita úrræða fremur en að festast til langframa á fjárhagsaðstoð.

Málefnið var ekki rætt til niðurstöðu á fundinum en þátttakendur voru á einu máli um gagnsemi þess að skiptast á skoðunum um þennan mikilvæga þátt í félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur hjá sambandinu, fjallaði um hugsanlegar breytingar á íslenskri löggjöf, meðal annars með hliðsjón af stöðunni í nágrannalöndum. Meðal atriða sem skoða þarf í vinnunni framundan er samspil fjárhagsaðstoðar við framfærsluskyldu innan fjölskyldu, aldurstengingar, tilboð um hlutastörf og viðbrögð við því ef viðtakendur aðstoðar glíma við fíkn eða heilbrigðisvanda.