11. ágú. 2017

Stuðlað að minni notkun plastpoka

Plaspokar-bannadirPlast veldur verulegum usla í náttúrunni. Ein einfaldasta aðgerðin til að draga úr plastmengun er að minnka plastpokanotkun.

Fyrsti plastpokinn sem var framleiddur hér á landi árið 1968, er enn til og verður svo um ókomin ár einhvers staðar í náttúrunni. Ástæðan er sú að plast brotnar niður á löngum tíma eða á 100-500 árum, allt eftir því hvernig það er gert. Sveitarfélög hafa mörg hver stuðlað að minni plastpokanotkun, eins og bent er á í fróðlegri samantekt í nýjasta tölublaði Sveitarstjórnarmála, en betur má ef duga skal.

Plastbölið er á meðal stærstu áskorana í umhverfismálum. Þar vega plastpokar þungt, en talið er að Íslendingar noti um 35 milljónir (35.000.000) af þeim á ári hverju, sem gerir um 1,5 milljarðar af pokum á þeim tæpu 50 árum sem plastpokar hafa verið í notkun að staðaldri hér á landi. Og allt er þetta plast meira eða minna enn til.

Auk sorpflokkunnar, sem gefur íbúum kost á að flokka lífrænan og endurvinnanlegan úrgang frá óendurvinnanlegum, geta sveitarfélög hvatt til minni plastpokanotkunar með margvíslegu móti. Í Stykkishólmi var plastpokinn kvaddur opinberlega árið 2014, að undirlagi umhverfishóps sveitarfélagsins, á fjölmennri kveðjuhátíð. Á Höfn í Hornafirði hefur margnota taupokum verið dreift í verslunum og í Skagafirði miðar Pokastöðin að því að draga úr plastpokanotkun með útláni á heimasaumuðum taupokum, svo að dæmi séu nefnd.

Þá skilaði starfshópur umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir gegn plastpokanotkun athyglisverðri skýrslu af sér í júní sl. Þar er m.a. lagt til að sveitarfélög og sorphirðufyrirtæki vinni sameiginlega að því, að losa megi heimilisúrgang án þess að notaðir séu til þess plastpokar. Einnig er stungið upp á því að Umhverfisstofnun komi á fót samráðshópi með fulltrúum verslunarinnar og sveitarfélaga, sem væri jafnframt umræðuvettvangur um plast og hvernig vinna megi bug á neikvæðum umhverfisáhrifum þess.

Starfshópurinn, sem Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök verslunar- og þjónustu og Samtök iðnaðarins eiga aðild að, leggur jafnframt til að á árinu 2025 hafi burðarplastpokanotkun verði lækkuð úr 105 í 40 poka á ári á hvern Íslending í samræmi við nýja EES-breytingareglugerð.

Mun fleiri aðgerðir eru lagðar til í samtals 12 liðum. Nálgast má skýrsluna á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.