Yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga er komið út

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gefið út yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga. Yfirlitinu er ætlað sveitarfélögum til leiðbeiningar við stefnumótun og áætlanagerð, en einnig mun það nýtast ráðuneytinu vegna áætlanagerðar sem því er nú ætlað að sinna vegna málefna sveitarstjórnarstigsins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gefið út yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga. Yfirlitinu er ætlað sveitarfélögum til leiðbeiningar við stefnumótun og áætlanagerð, en einnig mun það nýtast ráðuneytinu vegna áætlanagerðar sem því er nú ætlað að sinna vegna málefna sveitarstjórnarstigsins.

Í yfirlitinu eru verkefni sveitarfélaga flokkuð eftir málaflokkum og hvort þau eru lögskyld eða lögheimil. Í lögheimilum verkefnum felst að sveitarfélag hefur svigrúm til þess að ákveða hvort verkefninu er sinnt. Ef sú ákvörðun er tekin gildir um verkefnið tiltekinn lagarammi.

Yfirlitið hefur ekki stöðu réttarheimildar, enda er mælt fyrir um verkefni sveitarfélaga í lögum. Það er gefið út skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, en í 7. gr. þeirra er kveðið á um árlega útgáfu ráðuneytisins á slíku yfirlits og skulu verkefnin flokkuð eftir því hvort þau eru skyldubundin eða ekki. Er að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga vel, að yfirlitið hafi loks verið gefið út.

Yfirlitið mun jafnframt koma ráðuneytinu að notum, en áætlanagerð ríkisins á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála hefur verið samræmd með breytingum á ýmsum lögum sem samþykkt voru sl. vor.

Í því felst að ráðuneytið mun framvegis taka saman í eina áætlun, stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Þá stefnumörkun leggur ráðherra síðan fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu, að minnsta kosti á þriggja ára fresti, ásamt aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.

Hér er um nýmæli að ræða sem fella áætlanagerð ríkisins í málefnum sveitarfélaga að annarri áætlanagerð innan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og mun yfirlitið auðvelda þessa vinnu, að mati ráðuneytisins.

Öllum er frjálst að koma ábendingum vegna yfirlitsins á framfæri við ráðuneytið á postur@srn.is og mun það taka breytingum eftir því sem efni standa til.