05. des. 2017

Reykjavik.is besti sveitarfélagavefurinn

Vefur Reykjavíkurborgar var valinn besti sveitarfélagavefurinn af dómnefnd UT-dagsins 2017. Af ríkisstofnunum bar nýi stjórnarráðsvefurinn sigur úr býtum. Val dómnefndar byggði á úttektinni Hvað er spunnið í opinbera  vefi? sem farið hefur fram annað hvert ár allt frá árinu 2005. 

Úttektin hefur að jafnaði tekið til um 300 opinberra vefja hvað innihald, nytsemi, aðgengi, þjónustu og lýðræðislega þátttöku snertir. Þá var öryggi þeirra einnig tekið út og er þetta í annað sinn sem vefir eru metnir m.t.t. veföryggis.

Á heildina litið bættu sveitarfélögin sig talsvert ef ekki verulega í öllum flokkum, sér í lagi hvað öryggisúttektina varðar

Stigahæstu sveitarfélagavefirnir voru að þessu sinni Fljótsdalshérað (98), Kópavogsbær (98), Reykjavíkurborg (98), Akureyrarbær (96) og Reykjanesbær (96), en í flokki stofnanavefja voru stigahæstu vefirnir hjá neytendastofu (99), Þjóðskrá Íslands (99), Háskóla Íslands (98), Ríkisskattstjóra (98) og Stjórnarráðinu (98).

Í umsögn dómnefndar um besta sveitarfélagavefinn 2017 segir m.a. að upplifun af notkun vefjarins sé á heildina litið góð. Aðgengi að upplýsingum sé auðvelt, sérstaklega ef miðað er við mikið magn upplýsinga á vefnum og  fréttaflutningur úr borginni sé einnig öflugur. Þá er forsíða talin vel skipulögð og valmyndir skýrar og hönnunin þykir einnig skýr og litanotkun góð. Samspil ljósmynda og táknmynda er enn fremur talið vel útfært og þar sem orðalag notenda er notað í fyrirsögnum, er talað við notendur.

Hvað besta stofnanavefinn varðar, þá þótti  aðgengi að upplýsingum einnig mjög gott og flokkar skýrir. Enn fremur er talið auðvelt að ná í upplýsingar frá miklu gagnamagni og að ná yfirsýn yfir fjölþætta starfsemi stjórnarráðsins. Stílhrein vefhönnun er jafnframt talin lýsandi fyrir hlutverk stjórnarráðsins og skipulag stjórnsýslunnar þykir koma vel fram. Litanotkun er sögð einföld og í samræmi við hlutverk vefjarins og  ljósmyndir gefi vefnum mannlegan blæ.  Á heildina litið virki vefurinn traustur og þjáll á notandann.

Dómnefnd skipuðu Marta Kristín Lárusdóttir, lektor  við Háskólann í Reykjavík,  Tinni Sveinsson, þróunarstjóri 365 og Margrét Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins.

Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar á UT-deginum 30. nóvember sl. þar sem fjallað var um það sem efst er á baugi í vefmálum ríkis og sveitarfélaga.

Ljósmynd: Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi og frá Rafrænni þjónustumiðstöð Reykjavíkur Þröstur Sigurðsson, Finnur Kári Guðnason, Kolbrún Kristín Karlsdóttir, Edda Jónsdóttir og Hreinn Hreinsson.