Mikilvægt að afstaða allra sveitarstjórna liggi fyrir

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt að allar sveitarstjórnir í landinu móti sér afstöðu til skýrslnanna um annars vegar stöðu og framtíð sveitarfélaga og hins vegar um endurskoðun á jöfnunarframlögum.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt að allar sveitarstjórnir í landinu móti sér afstöðu til skýrslu um stöðu og framtíð sveitarfélaga, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti gaf út í júlí sl. og einnig til áfangaskýrslu nefndar um endurskoðun á jöfnunarframlögum til sveitarfélaga, sem kom út hjá sama ráðuneyti í október sl.

Fjallað var um báðar skýrslur á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sl. haust.

Á stjórnarfundi sambandsins nú í desember sl. var framkvæmdastjóra sambandsins jafnframt falið að leggja þessar skýrslur fram til umfjöllunar á næsta landsþingi sambandsins, sem fer fram dagana 26.-28. september nk.

Sveitarstjórnir voru hvattar til þess í bókun stjórnar um málið, að taka báðar skýrslur til efnislegrar umfjöllunar. Mikilvægt er vegna áframhaldandi vinnslu þessara mála, að afstaða allra sveitarstjórna liggi fyrir, ekki hvað síst í tengslum við landsþingið næsta haust og stefnumörkun þess til næstu fjögurra ára.