10. ágú. 2017

Þátttaka barna á sveitarstjórnarstigi í málefnum sem þau varða

Þátttaka barna á sveitarstjórnarstigi í málefnum sem þau varða Ungmennaráð sveitarfélaga gegna mikilvægu hlutverki fyrir innleiðingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar á þátttöku barna á sveitarstjórnarstigi í málefnum sem þau varða. Engin lagaleg skylda sé þó til staðar þegar kemur að starfsemi ungmennaráða eða markaðir tekjustofnar sem bendir til þess, að börn séu misjafnlega í sveit sett í þessum efnum, allt eftir búsetu.

Rannsóknin er lokaverkefni Önnu Sigurjónsdóttur til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Þátttaka barna í ungmennaráðum á höfuðborgarsvæðinu var greind með tilliti til 12. gr. barnasáttmálans, sem kveður á um rétt barna til eigin skoðana og áhrifa og er jafnframt ein af fjórum grundvallarákvæðum sáttmálans. Hin þrjú eru bann við mismunun, rétturinn til forsjár og rétturinn til lífs og þroska og byggja á 2., 3. og 6. greinum sáttmálans.

Barnasattmalans-minnst-i-REKÍ lokaorðum kemur fram að ekki geti talist óeðlilegt þó að það taki tíma að innleiða 12. greinina. Aðild barna að opinberri ákvarðanatöku krefjist oft og tíðum viðhorfsbreytinga gagnvart stöðu þeirra í samfélaginu, auk þess sem erfitt geti reynst að koma í veg fyrir táknræna þátttöku af þeirra hálfu.

Á hinn bóginn þekki börn yfirleitt nánasta umhverfi sitt betur en fullorðnir og sá aukni kostnaður sem fylgt geti þátttöku þeirra skili sér almennt til baka í betri og framsýnni ákvörðunum. Þegar upp er staðið sé aðild barna að ákvörðunum sem þau snertir því allra hagur.

Þá er bent á að innan við helmingur sveitarfélaga sé með ungmennaráð starfandi á sínum vegum eða 44,6%. Vert sé í því sambandi að líta til athugasemda barnaréttarnefndar S.þ. frá árinu 2011, þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að leiða í lög hlutverk og umboð ungmennaráða í lög. Með hliðsjón af því að ungmennaráð starfa á sveitarstjórnarstigi væri jafnframt einfaldast að sveitarstjórnarlög fjölluðu um starfsemi þeirra en ekki æskulýðslög. Einnig þurfi að lita til fjárveitinga ríkisins, svo koma megi þessum mikilvægu ráðum á fót í öllum sveitarfélögum landsins.

Ísland fullgilti barnasáttmála S.þ. árið 1992. Á árinu 2013 var sáttmálinn síðan leiddur í lög.

Þetta lokaverkefni Önnu Sigurjónsdóttur hlaut styrk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það var gefið út í júni sl.

Ljósmynd: Börn á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar minnast réttinda sinna á degi barnasáttmálans (20. nóvember 2011).

Anna Sigurjónsdóttir hlaut styrk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna lokaverkefnisins, sem kom út í júní sl.