Orðsporið 2018

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í 11. sinn þriðjudaginn 6. febrúar 2018. Markmið dagsins er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla starfi sem þar fer fram. Í tilefni dagsins var Orðsporið veitt við hátíðlega athöfn á leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit.

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í 11. sinn þriðjudaginn 6. febrúar 2018. Markmið dagsins er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla starfi sem þar fer fram. Í tilefni dagsins var Orðsporið veitt við hátíðlega athöfn á leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit.

Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað framúr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Orðsporið 2018 hlaut Hörgársveit fyrir að vera það sveitarfélag sem hefur hæst hlutfall leikskólakennara í starfi við uppeldi og menntun barna.

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum, nr. 87/2008, eiga að lágmarki 2/3 hlutar þeirra er starfa við uppeldi og menntun í leikskóla að hafa leyfisbréf til kennslu í leikskóla eða 66,66%. Hlutfall leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun í leikskólabarna í Hörgársveit er 84% sem er nokkuð yfir lágmarki laganna og það hæsta á landinu.

Að mati valnefndar um Orðsporið 2018 er mikilvægt að hafa vel menntaða starfsmenn í leikskólum landsins því það muni án efa skila sér í auknum gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og um leið styrkja leikskóla sem áhugaverða vinnustaði. Hörgársveit hefur sett sér það markmið að í skólunum starfi hæft fólk með viðeigandi menntun við bestu námsaðstæður og vinnuskilyrði sem völ er á. Í skólastefnu Hörgársveitar kemur fram að leiðarljós sveitarfélagsins er að vinna markvisst að því að mennta börn í metnaðarfullu skólastarfi þar sem velferð barnanna og starfsfólks er í fyrirrúmi og að menntunin nýtist til framtíðar. Er það m.a. gert með því að vera með virkar starfsþróunaráætlanir sem eru endurskoðaðar árlega. Þetta skilar sér í stöðugleika í starfsmannahaldi og góðum starfsanda enda segir starfsfólk leikskólans: „Það er gaman og gott að vinna og vera til á Álfasteini“.

Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, afhenti Orðsporið 2018, flutt voru stutt ávörp og börn í leikskólanum Álfasteini sungu fyrir hátíðargesti.

 Ordsporid

Á myndinni eru:

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Hugún Ósk Hermannsdóttir, leikskólastjóri Álfasteins, Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, Klara E. Finnbogadóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Björk Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og Sigurður Sigurjónsson, starfandi formaður Félags stjórnenda leikskóla.

Leikskolaborn