07. feb. 2017

Orðsporið 2017

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í tíunda sinn mánudaginn 6. febrúar 2017. Markmið dagsins er að beina sjónum að leikskólanum og því gróskumikla starfi sem þar fer fram. Í tilefni dagsins var Orðsporið veitt við hátíðlega athöfn á leikskólanum Hofi í Reykjavík.

Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað framúr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Orðsporið 2017 hlaut Framtíðarstarfið – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins. Að Framtíðarstarfinu standa Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

VikingaklappidÁtaksverkefninu Framtíðarstarfið var hleypt af stokkunum í apríl 2014 og endurtekið vorið 2015 og 2016. Markmið átaksins er að efla jákvæða ímynd leikskólans, hækka menntunarstig starfsmanna leikskóla og fjölga þeim sem leggja fyrir sig leikskólakennarafræði. Í tengslum við verkefnið var ný vefsíða sett í loftið, http://framtidarstarfid.is/, þar sem fjallað er um námsmöguleika sem eru í boði fyrir þá sem vilja verða leikskólakennarar og þá skóla sem bjóða upp á leikskólakennaranám. Þá er starfi leikskólakennara gerð góð skil á síðunni.

Að mati valnefndar um Orðsporið 2017  hafa samstarfsaðilar um átaksverkefnið Framtíðarstarfið unnið ötullega að málefnum leikskólans og kynnt það sem vænlegt framtíðarstarf. Þá er vefsíða Framtíðarstarfsins afar vel heppnuð, framsetning er lífleg en um leið afar fræðandi. Er ánægjulegt að sjá að fjöldatölur í háskólana sýna að aðsókn í námið hefur aukist á því tímabili sem átakið hefur staðið.

„Allir geta verið sammála um að mikilvægt er að efla leikskólastigið enda hagsmunamál að hafa vel menntaða starfsmenn í leikskólum landsins. Það mun án efa skila sér í auknum gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og um leið styrkja leikskóla sem áhugaverða vinnustaði. Því er átaksverkefni á borð við Framtíðarstarfið afar mikilvægt og til þess fallið að efla orðspor leikskólakennarastarfsins og breyta afstöðu ungs fólks til starfsins“, segir í umsögn valnefndar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Orðsporið 2017, flutt voru stutt ávörp, börn í leikskólanum Hofi sungu fyrir hátíðargesti og Magnús Magnús Magnússon stjórnaði víkingaklappinu af stakri snilld.

Ordsporshafar-2017---notaAftari röð: Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Fremri röð: Klara E. Finnbogadóttir, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristín Dýrfjörð, dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri, og Arna H. Jónsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.