04. júl. 2017

Niðurstöður tilraunaverkefnis um hljóðvist í leikskólum

Akureyrarkaupstaður, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun og Vinnueftirlitið fóru haustið 2015 af stað með tilraunaverkefni sem ætlað var að kortleggja hvað í starfsumhverfi leikskóla valdi mestum hávaða og hvaða leiðir eru bestar til að sporna við hávaða og bæta hljóðvist í leikskólum.

Valdir voru þrír leikskólar á Akureyri; Krógaból, Lundarsel og Naustatjörn. Gerðar voru mælingar haustið 2015 og í kjölfar þeirra var ráðist í úrbætur, svo sem á húsnæði, skipulag starfsins var endurskoðað og efnt var til fræðslu um hljóðvist, hávaða, rödd og raddheilsu fyrir starfsfólk og börn leikskólanna. Haustið 2016 var mælingin endurtekin.

Húsnæði leikskólanna kom vel út. Samkvæmt mælingum var ómtími innan eðlilegra marka og ætti því ekki að hafa afgerandi áhrif, hvorki á hávaða né hlustunarskilyrði. Þá voru hávaðamælingar innan hávaðamarka skv. reglugerðum Vinnueftirlitsins en þó var hávaði of mikill fyrir heilsusamlega raddbeitingu og auðvelda hlustun.

Marktækur munur var á upplifun starfsmanna af hávaða milli mælinga. Umbætur á húsnæði og aðbúnaði skiluðu sér mjög vel að mati starfsfólks. Eftir íhlutunina upplifði starfsfólk minni hávaða í ákveðnum rýmum (matsal), á ákveðnum tímum (matartíma, frjálsum leik), minni hávaða í húsgögnum (borðum, stólum, viftum og hurðum) og minni glymjanda í húsnæðinu. Breytingar á skipulagi, varðandi t.d. matartíma, útiveru og frjálsan leik, leiddu auk þess til þess að starfsfólk kvartaði minna undan hávaða á þeim tímum dagsins.

Mat starfsfólks á eigin raddheilsu versnaði hins vegar á milli 2015 og 2016. Starfsfólk taldi sig finna fyrir fleiri raddveilueinkennum síðara árið. Líkleg skýring á því þykir vera sú að í millitíðinni hafði starfsfólk verið frætt um líkamleg einkenni sem fylgja raddveilum og það orðið meðvitaðra um raddheilsu sína.

Þá kom fram að starfsfólk leikskólanna þriggja fann helst fyrir streitu í miklum hávaða þegar unnið var með stóra hópa barna í frjálsum tímum. Lögðu flestir starfsmenn til að fækkað yrði í hópum til að draga mætti úr hávaða.

Það er mat aðstandenda verkefnisins að lærdómur verkefnisins sé í hnotskurn þessi:

  • Finna þarf orsakir hávaða í hverjum skóla
  • Úrbætur á umhverfi bera árangur
  • Skipulag og kennsluhættir geta dregið úr hávaða
  • Auka þarf þekkingu á raddvernd og hávaða, bæði meðal starfsfólks og barna
  • Efla þarf fræðslu um málaflokkinn
  • Hávaði getur valdið álagi og streitu

Hér má nálgast niðurstöður verkefnisins í heild.