Kennarar heiðraðir fyrir framúrskarandi störf

Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti fimm kennurum viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í dag. Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins Hafðu áhrif sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum og gaf almenningi kost á að tilnefna eftirminnilega kennara.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti fimm kennurum viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í dag. Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins Hafðu áhrif sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum og gaf almenningi kost á að tilnefna eftirminnilega kennara.

Tilnefningar fóru fram á vef átaksins hafduahrif.is, en tilgangur þess var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið. 

Viðtökurnar voru afar góðar en hátt í þúsund tilnefningar bárust. Valnefnd skipuð fulltrúum Háskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og kennaranema fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum.

Niðurstaðan var sú að veita fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu. Þá voru í fyrsta sinn veitt sérstök hvatningarverðlaun til ungs kennara fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Kri_hafdu_ahrif_180606_001

Verðlaunahafar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, rektor Háskóla Íslands, og forseta Menntavísindasviðs. Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Gísli Hólmar Jóhannesson, kennari hjá Keili, Sara Diljá Hjálmarsdóttir, kennari í Höfðaskóla, Valdimar Helgason, kennari í Réttarholtsskóla, Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, Sigríður Ása Bjarnadóttir, kennari í Leikskólanum Teigaseli, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

(Ljósm. Kristinn Ingvarsson)