08. nóv. 2017

Hver vill koma að kenna?

Sólveig María Árnadóttir, nemi við Háskólann á Akureyri og Hjörvar Gunnarsson, nemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, deildu með skólaþinginu ástæðu þess að þau völdu að fara í kennaranám við góðar undirtektir þinggesta. Einnig veltu þau nýliðunarvandanum fyrir sér.

Hjörvar hefur frá því að hann var lítill langað til að verða grunnskólakennari. Átti sér þá ósk heitasta, en játaði að hann hefði um tíma farið í afneitun, þar sem það þótti nú ekkert sérstaklega töff að verða kennari. Að lokum hefði þó löngunin til að vinna við þetta skemmtilega starf orðið öllu öðru yfirsterkara. Þessi gleði með kennarastarfið hefur m.a. orðið Hjörvari að yrkisefni í bráðskemmtilegu myndbandi sem hann hefur deilt á samfélagsmiðlum á tagginu Komdu að kenna.

Sólveig tók undir með Hjörvari, að hún hefði einnig synt á móti straumum í löngun sinni til að gera grunnskólakennslu að framtíðarstarfi. Mest hafi henni þó komið á óvart viðbrögð kennara, sem voru hvað neikvæðastir í afstöðu sinni. – Ertu búin að ákveða hvaða aukastarf þú ætlar að fá þér? var á meðal neikvæðra athugasemda. Þetta neikvæða umtal hefst hjá stéttinni sjálfri, sagði Sólveig. Fjöldi kennara væri ánægður í starfi, en raddir þeirra heyrist ekki nógu vel fyrir neikvæðu tali um laun og kjör.

En hvers vegna skyldi maður ekki verða kennari? Svörin við spurningunni eru mörg og ólík eftir því hver spyr og hvenær. Þau atriði sem Sólveigu og Hjörvari langaði engu að síður til að benda á voru þessi:

Réttur að loknu þriggja ára námi: Gæti verið gott að hafa e.k. réttindi eftir þriggja ára nám og að réttindin aukist eftir því sem lengra dregur á fimm ára námið.

Við getum breytt stöðunni: Hvar er boltinn? Jú, hann er hjá menntakerfinu, hjá okkur sjálfum. Kennaraskortur er ekki nýr af nálinni. Höfum áður glímt við þess konar vanda. Af hverju tökum við ekki málin í eigin hendur og lögum þetta?

Að hugsa skóla eins og fyrirtæki: Erum ekki að tala um að einkavæða skóla, en af hverju má sem dæmi ekki gefa kennurum jólagjöf? Þarf ekki að kosta mikið, en getur sagt þeim mun meira. Þurfum að reyna að vera „besti skólinn“ í bænum, jafnvel þó að börnin komi sjálfkrafa í skólann þinn.

Baráttumaðurinn: Hver ætlar að berjast fyrir menntakerfinu. Verkefnin eru ærin, okkur vantar sem dæmi aukið fjármagn í menntamálin. Heilbrigðiskerfið nýtur góðs af baráttu Kára Stefánssonar. Okkur vantar sambærilegan baráttujaxl inn í menntakerfið.

Aðrir fyrirlesrar sem tóku til máls á síðari hluta skólaþings sveitarfélaga, sem bar yfirskriftina  Hvar eru kennararnir? voru Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands Íslenskra sveitarfélaga, Jóhannes Skúlason, ráðgjafi og fv. grunnskólakennari, Bjarni Ómar Haraldsson, sérfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar. Síðasta orðið átti Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi.
 

Komdu að kenna - Hjörvar Gunnarsson