01. sep. 2017

Flestir grunnskólar landsins með fullmannaðar kennarastöður

Flestir grunnskólar landsins hófu nú í ágúst skólaárið fullmannaðir samkvæmt fyrstu niðurstöðum könnunar, sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert. Kennarar skipa 92,5% stöðugilda.

Könnunin var send út þann 18. ágúst sl. og bárust svör frá 134 af 155 grunnskólum landsins. Nemur svarhlutfallið því liðlega 87 af hundraði. 

Nemendur í Grunnskóla Reyðarfjarðar

Spurt var hvort viðkomandi skóli hefði fullmannað allar kennarastöður fyrir komandi skólaár. Ef svo reyndist ekki vera, var því fylgt eftir með spurningu um fjölda ómannaðra stöðugilda. Þá var einnig spurt að heildarfjölda stöðugilda kennara og hvort og þá hve mörg af þeim væru skipuð leiðbeinendum.

Helstu niðurstöður eru þær að 111 af þeim 134 skólum sem tóku þátt sögðust vera fullmannaðir eða 83 af hundraði.

Ómönnuð stöðugildi reyndust 23 talsins eða 1 kennarastaða að meðaltali við þá skóla sem voru ekki fullmannaðir. Á heildina litið samsvarar þetta hlutfall innan við 1% af þeim heildarfjölda stöðugilda sem ætluð eru kennurum í grunnskólum landsins.

Þá gegndu leiðbeinendur 370 stöðugildum kennara af þeim liðlega 3.600 sem könnunin náði til og skiptust stöðugildin þannig að kennarar skipuðu 92,5% stöðugilda en leiðbeinendur 7,5%.

Frekari úrvinnsla á niðurstöðum stendur yfir, þ.á.m. stöðu einstakra landshluta og námsstöðu leiðbeinenda, en skv. þessum fyrstu niðurstöðum virðist ekki óalgengt að leiðbeinendur séu sem dæmi í háskólanámi meðfram kennslu.