Hlutur kvenna hefur aldrei verið meiri

Nærri einn af hverjum tveimur sveitarstjórnarmönnum er kona og hefur hlutur kvenna aldrei verið meiri í sveitarstjórnum en nú eða 47,2% Til samanburðar má nefna að hlutfall kvenna var að sveitarstjórnakosningum afloknum árið 1998 einungis 28,2% og hefur hlutfall þeirra því nánast tvöfaldast á sl. 20 árum.

Nærri einn af hverjum tveimur sveitarstjórnarmönnum er kona og hefur hlutur kvenna aldrei verið meiri í sveitarstjórnum en nú eða 47,2% Til samanburðar má nefna að hlutfall kvenna var að sveitarstjórnakosningum afloknum árið 1998 einungis 28,2% og hefur hlutfall þeirra því nánast tvöfaldast á sl. 20 árum.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú lokið við að taka saman upplýsingar frá sveitarfélögum um niðurstöðu síðustu sveitarstjórnakosninga.

Auk þess sem hlutur kvenna hefur aldrei verið meiri, hafa kjörnir sveitarstjórnarmenn aldrei verið færri en nú eða 502 talsins og hefur þeim fækkað um tvo frá síðustu kosningum. Þessa fækkun má rekja til  tveggja sameininga hjá Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ annars vegar og Breiðdalshrepps og Fjarðarbyggðar hins vegar. Á sama tíma fjölgaði borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 23 og má því segja að sú breyting hafi vegið upp á móti enn frekari fækkun í röðum sveitarstjórnarmanna.

Hvað endurnýjun sveitarstjórna snertir, þ.e. fjölda þeirra fulltrúa sem áttu ekki sæti í sveitarstjórn sem aðalmenn á síðasta kjörtímabili, þá eru þeir 293 talsins eða 58,4%. Samsvarandi
hlutfall eftir síðustu kosningar var 54,4% árið 2014 og 57,4% árið 2010.

Þegar endurnýjun fulltrúa er annars vegar, geta aðrar skýringar átt við, en að viðkomandi fulltrúi sé nýr á vettvangi sveitarstjórnarmála. Í einhverjum tilvikum kann aðalmaður að hafa setið áður sem sem varamaður í sveitarstjórninni eða sem aðalmaður á öðru kjörtímabili og í enn öðrum tilvikum kann fulltrúi að hafa fært sig um set á milli sveitarfélaga, eftir setu annars staðar í sveitarstjórn. „Nýir“ sveitarstjórnarmenn geta þess vegna haft reynslu af störfum í sveitarstjórnarmálum í einhverjum tilvikum, enda þótt tala „nýrra“ sveitarstjórnarmanna gefi annað til kynna. Ekki er þó ljóst í hve miklum mæli það er.

Sveitarstjornakosningar-2018Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga