Lækkun kosningaaldurs í 16 ár

Lagt er til að kosningaaldur til sveitarstjórna lækki úr 18 í 16 ár í frumvarpi, sem er nú í umsagnarferli. Að frumvarpinu standa 15 þingmenn úr öllum þingflokkum.

Lagt er til að kosningaaldur til sveitarstjórna lækki úr 18 í 16 ár í frumvarpi, sem er nú í umsagnarferli. Að frumvarpinu standa 15 þingmenn úr öllum þingflokkum.

Í greinargerð kemur fram að frumvarpinu sé ætlað að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Kjósendum mun fjölga um nærri 9.000 manns verði frumvarpið að lögum. 

Jafnframt er rýmkun kosningaaldurs sögð á meðal brýnustu umræðuefna samtímans og að allvíða hafi verið stigin skref til lækkunar, enda þótt málið hafi verið nálgast með ólíkum hætti eftir löndum. Dæmi séu um að kosningaaldur hafi verið víkkaður út í sérstökum kosningum, s.s. þjóðaratkvæðagreiðslum eða í kosningum til tiltekinna stjórnsýslustiga, eins og einmitt er gert ráð fyrir í umræddu frumvarpi.

Þá er þess getið, að á árinu 2007 hafi Austurríki orðið fyrst landa til að lækka kosningaaldur niður í 16 ár í öllum kosningum og kjörgengisaldur í 18 ár nema í forsetakosningum. Þar var áfram stuðst við óbreytt aldursviðmið eða 35 ár.

Umsagnarfrestur um frumvarpið er til 19. janúar nk. Unnið er að því hjá sambandinu að fá þann frest lengdan svo að leggja megi málið fyrir næsta stjórnarfund, sem verður 26. janúar.

Afar gagnlegt væri til undirbúnings fyrir þann fund, að fá viðbrögð frá sveitarstjórnum og sveitarstjórnarfólki um afstöðu þess til málsins.