Íslenska er stórmál

Íslenskan stendur á tímamótum og mikilvægt er að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum málum og sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Svo segir meðal annars í viljayfirlýsingu, sem  undirrituð var á Skólamálaþingi Kennarasambands Íslands (KÍ) fyrr í dag.

Íslenskan stendur á tímamótum og mikilvægt er að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum málum og sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Svo segir meðal annars í viljayfirlýsingu, sem  undirrituð var á Skólamálaþingi Kennarasambands Íslands (KÍ) fyrr í dag.

Yfirlýsinguna undirrituðu (f.v.) Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ.

Skólamálaþingið fór fram undir yfirskrift viljaryfirlýsingarinnar eða Íslenska er stórmál. Með undirritun sinni staðfestu aðilar vilja sinn til að stuðla að virkri notkun íslenskunnar og vinna saman að því að skapa jákvæðari viðhorf hjá börnum og unglingum í garð íslenskrar tungu.

„Við þurfum að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Til þess þurfum við að geta hugsað, starfað, leikið og skapað á íslensku. Við þurfum að geta verið fyndin, alvarleg, reið og sorgmædd á íslensku. Ég er bjartsýn af því að ég sé unga sem aldna nýta íslenska tungu í alls konar tilgangi, oft með nýjum og óvæntum hætti. Hins vegar er mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hlúa að þessu verðmæti sem við eigum öll saman,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu á skólamálaþinginu í dag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í ávarpi sínu viljayfirlýsinguna efla samtakamáttinn. „Okkur er mikið í mun að auka meðvitund og áhuga á íslenskri tungu og að því vinnum við best í sameiningu. Við höfum greint frá fjölþættum aðgerðum stjórnvalda er miða einmitt að þessu, en í þeim gegnir menntakerfið einkar mikilvægu hlutverki. Viljayfirlýsing sem þessi eykur samtakamáttinn, hann þurfum við til þess að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna,“ sagði Lilja Dögg.

Yfirlýsingin Íslenska er stórmál er svohljóðandi:

Kennarasamband Íslands, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Háskóli Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli staðfesta vilja til að standa að vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls. Ofangreindir aðilar munu leggja sig fram við að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á móðurmálinu, stuðla að virkri notkun þess og vinna sérstaklega að jákvæðari viðhorfum barna og unglinga til íslenskrar tungu. Íslenskan stendur á tímamótum og mikilvægt er að tryggja að íslensk tunga standi jafnfætis öðrum málum og sé notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Á það bæði við um daglegt líf og sérhæfðari samskipti.