06. okt. 2017

Tillögur um breytingar á regluverki jöfnunarsjóðs

JofnunarskyrslaÚt er komin skýrsla nefndar um endurskoðun á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  Innanríkisráðherra skipaði nefndina í september 2016, en unnið hefur verið að heildarendurskoðun á regluverki jöfnunarsjóðs frá árinu 2010.

Að áliti nefndarinnar hefur regluverk jöfnunarsjóðsins orðið flóknara með auknum verkefnum og þar af leiðandi verði erfitt að hafa heildarsýn yfir starfsemi hans. Lagði nefndin í meginatriðum fram tvær tillögur um að annars vegar verði tilteknar breytingar gerðar strax á regluverki sjóðsins og hins vegar að umfangsmeiri breytingar verði gerðar með lengri aðdraganda. Þær fela í sér að öll helstu jöfnunarframlög sjóðsins verði sameinuð í eitt jöfnunarkerfi.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni voru Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins og Stefán Eiríksson borgarritari. Formaður nefndarinnar var Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ.