19. apr. 2017

Nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið

Nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga árin 2018-2022 var undirritað þann 6. apríl sl. Samkomulagið byggir á lögum um opinber fjármál, sem ná yfir fjármál ríkis og sveitarfélaga, og gildir til eins árs.  Er þetta í annað sinn sem ríkið og sveitarfélög undirrita samkomulag á grundvelli þessara laga.  

Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd sveitarfélaganna, en fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fyrir hönd ríkisins.

Samkomulag-vid-sveitarfelogin-undirritadAfkomumarkmið

Ríki og sveitarfélög eru sammála um eftirfarandi afkomumarkmið sem byggja á samþykktri fjármálastefnu:

  1. Heildarafkoma hins opinbera (A-hluta) verði jákvæð öll árin 2018-2022. Heildarafkoma opinberra aðila (A-hluti og fyrirtæki hins opinbera) verði einnig jákvæð á tímabilinu.
  2. Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga verði jákvæð um allt að 0,1% af VLF árið 2018 og jákvæð um 0,2% af VLF árin 2019-22.
  3. Áætlanir um þróun launakostnaðar byggjast á metnum kostnaðaráhrifum gildandi kjarasamninga en þegar þeim lýkur er gengið út frá því að launaþróun endurspegli sjálfbæran vöxt kaupmáttar sem svari til 1,5% árlegra launahækkana umfram almennar verðlagshækkanir. Aðilar munu samhæfa launastefnu sína og leitast við að tryggja sambærileg kostnaðaráhrif kjarasamninga. Raskist afkomumarkmið vegna launaþróunar munu aðilar taka upp viðræður um hvernig við skuli brugðist.
  4. Rekstur sveitarfélaga verði sjálfbær í þeim skilningi að skuldir þeirra sem hlutfall af VLF lækki. Þetta er þó háð niðurstöðu varðandi reikningshaldslega meðferð skuldaviðurkenninga sveitarfélaga við lífeyrissjóðinn Brú. Miðað við forsendur samkomulagsins ætti skuldahlutfall A-hluta sveitarfélaga að geta haldið áfram að lækka, eins og undanfarin ár, úr  114% af tekjum árið 2015 í um 90% árið 2022.
  5. Þrátt fyrir þörf á auknum fjárfestingum hins opinbera er mikilvægt að tekið sé tillit til stöðu þjóðarbúsins og heildareftirspurnar m.a. í ljósi fjárfestinga annarra aðila. Leggja þarf mat á fjárfestingarþörf og –áætlanir opinberra aðila og samhæfa til skemmri og lengri tíma. Fari þau tilboð sem ríki,  sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar fá vegna fjárfestingaverkefna verulega fram úr kostnaðaráætlunum munu ríki og sveitarfélög taka upp viðræður um hvernig við skuli brugðist. Fjárfestingar ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga skulu vera sjálfbærar og fela að jafnaði ekki í sér aukna skuldsetningu þessara aðila.
  6. Rekstri sveitarfélaga verði haldið innan varúðarmarka í þeim skilningi að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun sé raunsæ og að sveitarfélög gangist ekki undir skuldbindingar sem raski forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma.

Gerður er fyrirvari um nákvæmni og gæði gagna og skal unnið að því á næstu mánuðum að ná sameiginlegri niðurstöðu um forsendur og verða markmið samkomulagsins endurskoðað ef tilefni er til. Þá kemur skýrt fram í samkomulaginu að sameiginlegur skilningur aðila um að samkomulagið bindi ekki hendur einstakra sveitarfélaga. Á hinn bóginn felst í samkomulaginu að Samband íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir því að sveitarfélögin muni sem heild haga fjármálum sínum þannig að þau virði ákvæði og forsendur samkomulagsins.

Sameiginleg verkefni

Á gildistíma fjármálaáætlunar 2018-2022 munu ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga, vinna í sameiningu að ýmsum viðfangsefnum, sem lúta að áætlanagerð, eflingu sveitarstjórnarstigsins, þróun tekna, gjalda og framleiðni og samsarfi og verkaskiptingu.

Helstu verkefni eru þessi.

Efnisflokkur Helstu verkefni

Áætlanagerð

Bæta gögn um afkomu og áætlanir sem mynda forsendur fjármálastefnu og fjármálaáætlunar.

Efling sveitarstjórnarstigsins

Endurskoðun á fjármálareglum sveitarstjórnarlaga

Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Þegar niðurstöður verkefnisstjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga liggja fyrir síðar á þessu ári verður tekin ákvörðun um hvernig skuli staðið að næsta áfanga sem snýr að vinnu að stefnumótun til eflingar íslenska sveitarstjórnarstigsins til lengri tíma með áherslu á að auka getu þeirra til að veita íbúum sínum góða og hagkvæma þjónustu og efla faglega stjórnsýslu  þeirra

Þróun tekna, gjalda og framleiðni

Tekjustofnar sveitarfélaga verða skoðaðir og möguleg styrking þeirra reynist þess þörf.

Útgjalda- og framleiðniþróun þjónustu sveitarfélaga verði greind með áherslu á umfangsmestu málaflokkana og þá sem verða fyrir mestum áhrifum af lýðfræðilegri þróun.

Lagt verði mat á hvort rekstur sveitarfélaga sé sjálfbær með tilliti til þróunar tekna, gjalda og skulda. M.a. verði horft til íbúaþróunar, lýðfræðilegra þátta, forgangsröðunar, lagaskyldna, gæða þjónustu, innviða og hagræðingarmöguleika.

Samstarf og verkaskipting

Sameiginleg aðgerðaáætlun verði gerð vegna svokallaðra grárra svæða í þjónustu ríkis og sveitarfélaga þar sem þjónustusvið þeirra skarast.

Greint verður hvort lög og stjórnvaldsfyrirmæli leggi íþyngjandi skyldur á sveitarfélög sem auki kostnað án þess að áhrif á gæði og árangur séu skýr.

Mótað verði skýrt vinnuferli og þróaður framsetningarmáti varðandi niðurstöður kostnaðarmats laga, stjórnvaldsfyrirmæla og annarra stefnumarkandi ákvarðana af hálfu stjórnvalda ríkisins, er hafa áhrif á tekjur og útgjöld sveitarfélaga í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga, og ferli til að ákvarða fjármögnun þeirra.

Samstarf og samráð á sviði kjaramála verði eflt.