12. apr. 2017

Breytingar á fjárhæðum í húsnæðisbótakerfinu

Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að hækka frítekjumark í húsnæðisbótakerfinu til samræmis við þá hækkun á framfærsluviðmiði almannatrygginga sem tók gildi um síðustu áramót. Greint er frá þessari hækkun frítekjumarks í frétt ráðuneytisins.

Hækkun frítekjumarks hefur áhrif á fjárhæð þeirra húsnæðisbóta sem Vinnumálastofnun greiðir af hálfu ríkisins. Hækkunin gildir afturvirkt frá áramótum og er með þessu komið til móts við gagnrýni sem m.a. sveitarfélögin höfðu uppi um áramótin (sjá frétt á vef sambandsins).

Umrædd breyting á frítekjumarki hefur hins vegar ekki sjálfkrafa áhrif á þann sérstaka húsnæðisstuðning sem sveitarfélög greiða til viðbótar húsnæðisbótum ríkisins. Sveitarfélögin þurfa því að fjalla sérstaklega um það, hvort frítekjumörk í þeirra reglum verði hækkuð, m.a. með tilliti til verðlagsþróunar. Í því efni hefur sambandið lagt til að reglur sveitarfélaga komi til endurskoðunar um mitt þetta ár (maí - júlí 2017) og að þá verði tekin afstaða til þess að frítekjumarkið sé samræmt milli ríkis og sveitarfélaga eins og gert er ráð fyrir í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins, sem gefnar voru út um áramótin.

Eins og fram kemur í frétt á vef velferðarráðuneytisins beinir félags- og jafnréttismálaráðherra því til sveitarfélaga að taka tillit til leiðbeinandi reglnanna. Jafnframt er áhersla lögð á að sveitarfélög taki mið af aðstæðum leigjenda þegar þau framkvæma sínar reglur. Þar er aðalatriðið að sveitarfélög meti aðstæður leigjenda ekki einungis út frá hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum, heldur jafnframt og ekki síður út frá því hvort leigjandi búi við sérstaklega þunga framfærslubyrði eða aðrar slæmar félagslegar aðstæður í skilningi laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.