13. júl. 2017

Ársreikningar sveitarfélaga 2016

Niðurstöður liggja nú fyrir um ársreikninga 63 af 74 sveitarfélögum landsins fyrir árið 2016. Í þessum sveitarfélögum búa vel yfir 99% landsmanna. Reikningum sveitarfélaga er skipað í tvo hluta. Undir A-hluta starfsemi sveitarfélaga falla verkefni sem að mestu eru fjármögnuð af skatttekjum. Þar má nefna verkefni eins og fræðslumál, félagsþjónustu, æskulýðs- og íþróttamál, umhverfis- og skipulagsmál. Starfsemi sveitarfélaga sem fellur undir B-hluta eru fyrirtæki og stofnanir sem eru að hálfu eða öllu leyti í eigu sveitarfélaga, reknar sem sjálfstæðar rekstrareiningar og  að mestu fyrir tekjur af veittri þjónustu. Ársreikningar sveitarfélaga sýna annars vegar rekstur, efnahag og sjóðstreymi samstæðu A- og B-hluta og hins vegar A-hlutans.  

 

Til nokkurra tíðinda ber að langtímaskuldir sveitarfélaga lækka milli ára um 4,8 ma.kr. eða sem nemur 2,9%. Hér er fyrst og fremst um að ræða verðtryggðar skuldir og hafa má í huga að vísitala neysluverðs hækkaði um 1,9% frá janúar 2016 til jafnlengdar 2017. Raunlækkun skulda er því um 4,7%. Heildarskuldir, bæði til langs og skamms tíma, lækkuðu um 1,4%. Námu þær 86,5% af tekjum 2015 en 76,1% 2016 og svarar lækkunin til rösklega 10% af tekjum. Skuldbindingar jukust hins vegar töluvert eða  um 14,3%, en lífeyrisskuldbindingar eru þar langfyrirferðarmestar. Heildarskuldir og skuldbindingar námu 299,4 ma.kr. í árslok 2016 samanborið við 292,3 ma.kr. í árslok 2015 og nemur hækkunin 2,5%.