03. des. 2014

Frumvarp um virka velferðarstefnu

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Efni frumvarpsins er í anda virkrar velferðarstefnu og snýr það að atvinnuleitendum sem hafa fullnýtt eða munu að óbreyttu fullnýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta á komandi misserum.  Meginmarkmið frumvarpsins er að virkja atvinnuleitendur til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði af sér óvinnufærni og aðra neikvæða félags- og heilsufarsþætti.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt þunga áherslu á að frumvarpið væri lagt fram. Málið hefur verið til umfjöllunar á sveitarstjórnarstiginu um nokkurra missera skeið auk þess sem sveitarfélög, þar á meðal Hafnarfjarðarbær, hafa ráðist í sérstök verkefni. Í þessari umræðu hefur náðst breið samstaða um aðgerðir fyrir þá fjölmörgu atvinnuleitendur sem leita til sveitarfélaga þegar bótatímabil atvinnuleysistrygginga rennur út, en eins og kunnugt er hefur það tímabil verið að styttast. Tillögum í frumvarpinu er ætlað að taka af öll tvímæli um inntak heimilda til að binda fjárhagsaðstoð skilyrðum um virka atvinnuleit en nokkur óvissa hefur verið uppi um það efni, einkum þar sem núgildandi lagaákvæði eru komin til ára sinna. Þá mun frumvarpið búa til lagagrundvöll undir samstarf milli Vinnumálastofnunar og félagsþjónusta sveitarfélaganna um mat á vinnufærni og þjónustu við atvinnuleitendur sem njóta fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum. Að mati sambandsins mun frumvarpið, verði það samþykkt, leiða til bættrar þjónustu og stuðla að því að einstaklingar fái í reynd þann stuðning sem þeir þurfa.

Við undirbúning frumvarpsins fór fram mat á áhrifum þess á fjárhag sveitarfélaga og var niðurstaða þess var að frumvarpið, verði það lögfest, muni hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Betra jafnvægi næst í útgjöldum til félagsþjónustunnar samhliða innleiðingu á virkri velferðarstefnu. Á móti vegur að aukning verður í stjórnsýslu þeirra vegna fjölgunar starfsmanna sem aukin einstaklingsbundin nálgun og bætt þjónusta kallar á.